| Sf. Gutt

Til hamingju!


Trent Alexander-Arnold náði þeim áfanga um síðustu helgi að leika sinn 200. leik fyrir hönd Liverpool. Þessi frábæri bakvörður er alltaf að verða betri og betri.

Trent spilaði sinn 200. leik með Liverpool þegar liðið mætti Chelsea á Stamford Bridge á öðrum í nýári. Þá var hann búinn að skora 12 mörk og eiga 54 stoðsendingar.

Trent fæddist í Liverpool 7. nóvember 1998. Þegar hann var sex ára tók einn af unglingaþjálfurunum Liverpool eftir honum og spurði foreldra hans hvort þau vildu leyfa honum að æfa hjá Akademíu félagsins. Þeim leist vel á þá hugmynd og í kjölfarið fór Trent að æfa með Liverpool. 


Það eitt að hafa náð að spila einn einasta leik með Liverpool er draumur fyrir alla stuðningsmenn Liverpool. Trent hefur náð að gera gott betur. En þegar hann spilaði fyrsta leikinn á móti Tottenham Hotpsur í Deildarbikarnum 25. október 2016 náði hann að uppfylla drauminn sem við stuðningsmenn Liverpool eigum öll.



Hann lék 12 leiki á fyrstu leiktíðinni, 2016/17, sem var góð byrjun. En á þeirri næstu lék hann 33 leiki og náði föstu sæti í liðinu. Frá keppnistímabilinu 2018/19 hefur Trent verið lykilmaður í liði Liverpool og unnið fimm titla. Eftir að Liverpool vann Evrópubikarinn í Madríd sumarið 2019 sagði hann. ,,Ég er bara venjulegur strákur frá Liverpool sem náði að uppfylla draum sem ég átti!" Ætli það er ekki einmitt kjarni málsins. 


Trent var frábær á meistaraleikeiktíðinni, 2019/20. Hann lagði upp 16 mörk í 49 leikjum og skoraði fjögur sem er það mesta sem hann hefur skorað. Sumir sparkspekingar sögðu að hann væri í raun leikstjórnandi Liverpool úr stöðu hægri bakvarðar. Einhverjir bættu við að svona leikmaður hefði bara ekki komið áður fram í knattspyrnuheiminum. 


Trent er ennþá að taka framförum enda ungur að árum. Hann er fljótur og býsna góður varnarmaður en fyrst og síðast er hann í allra fremstu röð hvað það varðar að leggja upp mörk. Í 200 leikjum hefur hann lagt upp 54 mörk. Það er ótrúleg tala á aðeins fimm keppnistímabilum ef fyrsta leiktíðin og sú sem nú stendur yfir er talin sem ein. Svo má segja að Trent og Andrew Robertson, vinstri bakvörður Liverpool séu algjörir lykilmenn í liðinu og eigi í raun samvinnu sem sé nýmæli í knattspyrnunni. Saman hafa þeir lagt upp rúmlega 100 mörk fyrir Liverpool. Ótrúlegt!

Liverpool klúbburinn óskar Trent til hamingju með tímamótin!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan