| Sf. Gutt

Spáð í spilinLiverpool vs Aston Villa

Það hefur varla verið meiri spenna fyrir leik Liverpool og Aston Villa síðan vorið 1980. Þá gat Liverpool orðið, og varð, Englandsmeistari með sigri á Villa á Anfield Road. Núna er spennan öll í kringum heimsókn fyrrum leikmanns Liverpool með nýja liðið sitt á fornar slóðir.


Maðurinn er reyndar ekki hver sem er. Steven Gerrard er fæddur stuðninsmaður Liverpool, ólst upp hjá félaginu, lék með aðalliðinu í áraraðir, varð fyrirliði Liverpool, besti uppaldi leikmaður í sögu félagsins, vann fjölda titla og er goðsögn hjá félaginu. Fáir einstaklingar skipa hærri sessi hjá Liverpool Football Club.


Vorið 2018 tók Steven Gerrard við sem framkvæmdastjóri Rangers í Skotlandi. Á síðasta keppnistímabili gerði hann Rangers að Skotlandsmeisturum. Það sem meira var ósigruðum meisturum sem er afrek í hvaða landi sem er. Í síðasta mánuði söðlaði hann óvænt um og gerðist framkvæmdastjóri Aston Villa. Starf varð allt í einu á lausu sem Steven fannst hann ekki geta hafnað og nú er hann kominn sem andstæðingur heim til Liverpool!


Nóg um Steven Gerrard. Enginn einstaklingur er stærri félaginu og Liverpool á leik framundan á móti Aston Villa. Mikilvægan leik í toppbaráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Aston Villa er með býsna gott lið og á góðum degi er liðið hættulegt. Liverpool vann nauman sigur á Villa á síðasta keppnistímabili þegar Trent Alexander-Arnold tryggði 2:1 sigur á allra síðustu stundu. Villa hefur leikið vel eftir að Steven tók við liðinu. Liðið leikur kraftmikla knattspyrnu líkt og Rangers gerði þegar Steven stjórnaði liðinu. Leikstíll Steven er kannski á ætt við hvernig Liverpool spilar undir stjórn  Jürgen Klopp. Ekki leiðum að líkjast!


Sem stendur er Liverpool í harðri toppbaráttu við Manchester City og Chelsea. Í þeirri baráttu má engu skeika. Liverpool vann ótrúlegan 0:1 sigur á Wolves um fyrir viku og þeim sigri var fylgt eftir með mögnuðu afreki í Mílanó. Liverpool, var með talsvert breytt lið, en vann samt 1:2 og vann þar með alla leiki sína í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.


Liverpool liðinu verður örugglega breytt í átt að því liði sem lék á móti Wolves. Ljóst er að andrúmsloftið á Anfield verður rafmagnað þegar liðin ganga til leiks á hefðbundnum leiktíma klukkan þrjú. Ljóst er að Liverpool þarf að spila mjög vel í dag. Ég spái því að Liverpool nái að vinna 2:0 í erfiðum leik. Mohamed Salah og Divock Origi skora.

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan