| Sf. Gutt

Fullt hús!!!


Liverpool vann mikið afrek í kvöld með því að leggja AC Milan að velli 1:2 á San Siro. Sigurinn þýðir að Liverpool vann riðil sinn með fullu húsi stiga!

Það lá fyrir að þó nokkrar breytingar yrðu gerðar á liði Liverpool. Öll aftasta varnarlínan frá því um helgina fékk frí. Alisson Becker stóð í markinu en þeir Nathaniel Phillips og Ibrahima Konaté voru miðverðir. Ungliðinn Tyler Morton fékk aftur tækifæri á miðjunni eins og á móti Porto í síðustu umferð. Divock Origi var fremstur manna. 

Leikurinn var lengi vel framan af í járnum. Líklega áttu margir von á ennþá meiri krafti í heimamönnum enda áttu þeir möguleika á að komast áfram með sigri. Liverpool, með breytt lið, gaf ekki tommu eftir. En AC Milan komst yfir á 28. mínútu. Eftir horn frá hægri náði Takumi Minamino ekki að hreinsa. Alisson Becker varði í kjölfarið en náði ekki að halda boltanum sem barst út til Fikayo Tomori sem skoraði af stuttu færi.

Liverpool hélt haus og jafnaði átta mínútum seinna. Alex Oxlade-Chamberlain braust fram og skaut að marki. Mike Maignan varði en náði ekki að halda skotinu. Mohamed Salah var á næstu grösum, hirti frákastið og stýrði boltanum upp undir slána og í markið. Enn eitt glæsimarkið hjá Egypska framherjanum. Jafnt var í hálfleik. 

Liverpool hafði undirtökin eftir hlé og eftir tíu mínútna leik var liðið komið yfir. Sadio Mané átti fast skot sem Mike varði. Hann náði ekki að handsama boltann sem hrökk hátt í loft upp. Divock Origi var á vaktinni, stökk manna hæst og skallaði yfir Mike í markinu. Liverpool með forystu!

Liverpool hafði góð tök á leiknum og heimamenn náðu lítt að ógna. Nathaniel Phillips og Ibrahima Konaté voru frábærir í hjarta varnarinnar. Það var ekki fyrr en fimm mínútum fyrir leikslok að Milan fékk færi. Franck Kessie komst inn í vítateiginn en Alisson var vandanum vaxinn, kom út á móti og varði. Það var líka jákvætt að fá þá Naby Keita og Joe Gomez inn á eftir meiðsli. Undir blálokinn komu ungliðarnir Conor Bradley og Max Woltman til leiks. Þetta var fyrsti leikur Max með aðalliðinu. Nokkrum andartökum seinna var flautað til leiksloka. Frækilegur og sögulegur sigur var í höfn!

Liverpool sýndi mikinn styrk í leiknum. AC Milan þurfti sigur til að komast áfram en Liverpool gaf ekkert eftir og vann sigur sem margir töldu að myndi ekki takst. Sigurinn var líka sögulegur. Liverpool varð fyrst enskra liða til að vinna riðil í Meistaradeildinni með fullu húsi stiga!!! Frækilegt afrek!!

Mark AC Milan: Fikayo Tomori (28. mín.).

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (36. mín.) og Divock Origi (55. mín.).

Áhorfendur á San Siro: 56.237.

Maður leiksins: Alex Oxlade-Chamberlain. Hann lék sinn besta leik í langan tíma. Alex var öflugur á miðjunni og sýndi að hann getur verið mjög góður þegar hann nær sér á strik. 

Jürgen Klopp: Ég er geysilega stoltur yfir þessum sigri í kvöld. Við vorum sérstaklega góðir í leiknum. 

Fróðleikur

- Liverpool varð fyrst enskra liða til að vinna undanriðil í Meistaradeildinni með fullu húsi stiga!

- Mohamed Salah skoraði 20. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Hann er nú búinn að skora að minnsta kosti 20 mörk fimm keppnistímabil í röð. Síðasti leikmaður Liverpool til að afreka það var Ian Rush.

- Mohamed varð fyrstur leikmanna Liverpool til að skora í fimm mismunandi leikjum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hann skoraði sjö mörk í riðlinum og það er líka félagsmet.  

- Divock Origi skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. 

- Belginn hefur nú skorað 40 mörk fyrir Liverpool. Hann hefur spilað 167 leiki. 

- Max Woltman lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan