| Sf. Gutt

Spáð í spilin


AC Milan vs Liverpool 

Stuðningsmenn Liverpool eru eiginlega ennþá að fagna sigurmarki Divock Origi á móti Wolves. En það er strax komið að næsta leik. Nú er það lokaleikurinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. 


Liverpool mætir AC Milan á San Siro annað kvöld. Það ótrúlega er að Liverpool er að spila sinn annan leik í keppninni eftir að hafa tryggt sér áframhald og auðvitað sigur í riðlinum sem margir kölluðu dauðariðilinn þegar dregið var. Liverpool er með fullt hús stiga sem þýðir 15 stig eftir fimm leiki. Markatala Liverpool er tíu mörk í plús. Hin þrjú liðin eru með neikvæða markatölu! Ótrúlegir yfirburðir Liverpool og glæsilegur árangur í riðlinum!

Porto er tíu stigum á eftir og svo koma AC Milan og Atletico Madrid með fjögur stig. Porto kemst áfram með Liverpool nái liðið að vinna Atletico sem kemst líklega áfram með sigri í leiknum en liðin mætast í Portúgal. AC Milan getur líka tryggt áframhald með sigri ef Porto og Altetico gera jafntefli. 

En hvað um Liverpool? Liðið er, sem fyrr segir, búið að vinna riðilinn. En Liverpool hefur að einu mjög merkilegu að keppa. Ef Liverpool vinnur á San Siro verður það í fyrsta sinn sem liðið vinnur undanriðil í Meistaradeildinni með fullu húsi stiga. Það yrði sannarlega gaman að afreka það!

Það eitt er víst að liði Liverpool verður breytt mikið frá því um helgina. Alla vega talsvert. Það eru margir leikir framundan næstu vikurnar og segja má að þessi leikur sé sá eini sem hægt að hvíla lykilmenn með góðri samvisku. AC Milan er með sterkt lið og trónir í efsta sæti í ítölsku deildinni. Það er á hreinu að stuðningsmenn Milan munu skapa rafmagnað andrúmsloft. Reyndar gera fylgjendur Rauða hersins líka sitt. Liverpool á því mjög erfiðan leik framundan. 

Ég spái því að Liverpool vinni 1:2 og nái fullu húsi stiga úr riðlinum. Divock Origi og Alex Oxlade-Chamberlain skora mörkin.

YNWA! 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan