| Grétar Magnússon

Stórsigur!

Liverpool komst á sigurbraut á ný með 4-0 stórsigri á Arsenal. Mané, Jota, Salah og Minamino sáu um að skora mörkin.

Það kom fátt á óvart í byrjunarliði Jürgen Klopp en tvær breytingar voru gerðar frá síðasta leik. Inn komu Kostas Tsimikas og Thiago fyrir Jordan Henderson sem settist á bekkinn og Andy Robertson sem var utan hóps vegna meiðsla. Þær fréttir bárust svo af Divock Origi að hann væri ekki með vegna veikinda.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og lítið var að frétta fyrstu mínúturnar en bæði lið voru þó að spila ágætlega sín á milli. Á 29. mínútu fóru leikar svo að æsast þegar fyrsta alvöru færi heimamanna leit dagsins ljós. Thiago átti þá skot í vítateignum sem Ramsdale í markinu varði vel, Mané reyndi að fylgja á eftir, rann á boltann og datt en reyndi þó að lyfta boltanum yfir markvörðinn sem varði í horn. Ramsdale var svo aftur vel á verði skömmu síðar þegar Salah skaut að marki úr vítateignum eftir fína sendingu frá Tsimikas og næstur á blað var Alexander-Arnold með vinstri fótar skoti en aftur varði Ramsdale vel. Áhorfendur á Anfield tóku vel við sér á meðan þessari hríð upp við mark Arsenal stóð og það hjálpaði vissulega til að stjórunum tveim lenti saman um svipað leyti, þeir görguðu hvor á annan þegar Mané og Tomiyasu stukku upp saman í skallabolta sem var lítið annað en barátta um boltann. Klopp notaði tækifærið og virtist biðja áhorfendur um að rífa sig meira í gang. Á 39. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins. Joel Matip ætlaði að skeiða upp völlinn eins og hans er stundum von og vísa. Brotið var á honum og Trent tók aukaspyrnuna sem var hárnákvæm á kollinn á Mané sem skallaði í netið. Staðan 1-0 í hálfleik.

Fyrsta markverða atvikið í seinni hálfleik var góður varnarleikur hjá Virgil van Dijk sem átti frábæra tæklingu á Aubameyang þegar hann var að komast í góða stöðu. En helstu atvikin áttu sér svo stað hinumegin á vellinum þar sem góð pressa Liverpool manna skilaði sér vel. Oxlade-Chamberlain átti skot rétt framhjá eftir að Fabinho hafði unnið boltann hátt á vellinum.



Á 52. mínútu gerði svo Nuno Tavares mikil mistök þegar hann hugðist leika boltanum til samherja. Sendingin fór beint á Jota sem sneri sér að marki, lagði einn Arsenal mann í grasið með því að þykjast skjóta og svo aftur Ramsdale í markinu, eftirleikurinn því auðveldur og staðan orðin 2-0. Næsta færi var Arsenal manna þegar Aubameyang fékk fína sendingu innfyrir en Alisson varði vel með hægri fæti. Á 73. mínútu kom svo þriðja markið eftir fallegan samleik upp völlinn. Mané var kominn í góða stöðu á teignum og sendi boltann til hægri þar sem Salah gat lítið annað en skorað. Ánægjulegt að sjá Salah aftur á lista yfir markaskorara. Þrem mínútum síðar gerði Klopp tvær skiptingar, inn komu Henderson og Minamino fyrir Oxlade-Chamberlain og Jota. Tæpri mínútu síðar var Minamino búinn að skora en markið hans var keimlíkt því hjá Salah. Alexander-Arnold sendi boltann þvert fyrir markið þar sem Japaninn átti auðvelt verk fyrir fótum og skoraði. Tyler Morton fékk svo sínar fyrstu úrvalsdeildarmínútur þegar hann kom inná fyrir Thiago á 84. mínútu og þessum fína stórsigri var siglt í höfn.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Tsimikas, Oxlade-Chamberlain (Henderson, 76. mín.), Fabinho, Thiago (Morton, 84. mín.), Salah, Jota (Minamino, 76. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Phillips, Beck, Bradley, Gordon.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (39. mín.), Diogo Jota (52. mín.), Mohamed Salah (73. mín.) og Takumi Minamino (77. mín.).

Gul spjöld: Fabinho og Mané.

Arsenal: Ramsdale, Tomiyasu, White, Gabriel, Tavares, Saka, Partey (Elneny, 84. mín.), Sambi Lokonga (Maitland-Niles, 53. mín.), Smith Rowe, Lacazette (Ödegaard, 67. mín.), Aubameyang. Ónotaðir varamenn: Leno, Tierney, Holding, Cédric Soares, Pépé, Martinelli.

Maður leiksins: Trent Alexander-Arnold átti tvær stoðsendingar í leiknum og hlýtur nafnbótina að þessu sinni. Annars spilaði liðið mjög vel og t.d. var ánægjulegt að sjá hvað Oxlade-Chamberlain var duglegur á miðjunni.

Jürgen Klopp: ,,Við þurftum að sýna viðbrögð (eftir tapið gegn West Ham), það er klárt. Eina vandamálið er að við vorum svo lítið saman eftir þann leik útaf landsleikjum en strákarnir unnu sig örugglega inn í leikinn í dag. Við skoruðum fyrsta markið en mér líkaði ekki við hvernig við leyfðum Arsenal að eiga góðan kafla eftir markið, annars var fyrri hálfleikurinn fínn. Við breyttum smá í hálfleik og seinni hálfleikurinn var mun betri."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt 11. deildarmark á leiktíðinni.

- Sadio Mané skoraði sitt 7. deildarmark.

- Diogo Jota skoraði sitt 5. deildarmark og Takumi Minamino sitt fyrsta.

- Liverpool komst upp í annað sæti deildarinnar (a.m.k. tímabundið) og eru með 25 stig eftir 12 leiki.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan