| Sf. Gutt

Þar kom að tapi!



Eftir 25 leiki án taps kom að því að Liverpool varð að lúta í gras. Liverpool tapaði 3:2 í höfuðstaðnum fyrir West Ham United. Liverpool missti þarna af góðu tækifæri til að draga á efsta lið deildarinnar og missti West Ham uppfyrir sig sem var hið versta mál!

Liverpool átti fyrstu sóknir leiksins en heimamenn komust á 4. mínútu. Eftir horn frá vinstri fór boltinn alla leið í mark Liverpoool. Alisson Becker snerti boltann lítilsháttar og markið skráð sem sjálfsmark hans. Leikmenn Liverpool vildu fá aukaspyrnu því þeir töldu að Alisson hefði verið hindraður. Vissulega er mjög oft dæmt markmönnum í vil í svona aðstæðum og það hefði vel verið hægt að gera það. Á hinn bóginn hefði Alisson átt að vera sterkari fyrir en á móti kom að þrír leikmenn West Ham stilltu sér í kringum hann og gerðu honum erfitt fyrir.

Eftir tæpar tíu mínútur jókst óánægja leikmanna Liverpool ennþá meir með dómara leiksins. Aaron Cresswell fór með sólann í hné Jordan Henderson og hann lá eftir. Fótur Aaron fór af boltanum og svo í Jordan og það hefði ekkert verið hægt að segja þó hann hann hefði verið rekinn út af. Atvikið, eins og mark West Ham, var skoðað í sjónvarpinu og niðurstaðan var sú að ekkert skyldi aðhafst. Stórmerkilegt!

Eftir þetta færðu leikmenn West Ham sig aftar á völlinn og Liverpool sótti án afláts. Lengst af án þess að skapa sér nokkur færi. Eftir rúman hálftíma sensi Jordan fyrir markið en Diogo skallaði yfir. Hann var í góðu færi og hefði átt að hitta markið. Fjórum mínútum fyrir leikhlé jafnaði Liverpool. Aukaspyrna var dæmd rétt utan við vítateiginn. Trent Alexander-Arnold rúllaði boltanum stutt á Mohamed Salah sem stillti boltanum upp. Trent kom svo á sömu svifum og negldi boltann upp undir þverslána. Markmaður West Ham hreyfði sig ekki. Staðan 1:1 í hálfleik. 

Á 50. mínútu skapaðist hætta við mark Liverpool eftir horn en boltinn strauk slána og fór yfir eftir skalla Craig Dawson. Tveimur mínútum seinna sendi ANdrew Robertson fyrir á Sadio Mané en skot hans við markteiginn fór beint á markmanninn. Þar hefði orðið mark ef Sadio hefði náð að stýra boltanum aðeins til hliðar. 

Leikurinn var nokkuð í jafnvægi þar til West Ham komst yfir á 67. mínútu. Eftir hraða sókn komst Pablo Fornals einn fram að vítateignum og skoraði. Alisson hafði hendur á boltanum og hefði átt að gera betur. Liverpool náði sér ekki á strik eftir þetta og á 74. mínútu kom þriðja mark heimamanna. Eftir horn frá vinstri var gefið fyrir og Kurt Zouma skallaði í mark óvaldaður við fjærstöngina. Alisson og varnarmenn Liverpool aftur illa á verði.

Liverpool komst inn í leikinn á nýjan leik þegar sjö mínútur voru eftir. Trent gaf á varamanninn Divock Origi. Hann sneri sér snöggt við í vítateignum og skoraði með skoti út í hægra hornið. Í viðbótartíma hafði Liverpool átt að jafna. Trent gaf fyrir markið úr aukaspyrnu. Sadio henti sér fram og skallaði að marki af stuttu færi en boltinn fór framhjá. Dauðafæri og kannski hefði Sadio átt að sparka boltanum frekar en skalla. Leiktíminn rann út og fyrsta tap Liverpool í 25 leikjum varð staðreynd.

Liverpool lék ekki nógu vel í leiknum og þó hefði liðið vel getað jafnað. En í síðustu tveimur deildarleikjum hefur Liverpool fengið á sig fimm mörk. Það er of mikið! Nú kemur hlé vegna landsleikja og vonandi kemur liðið sterkt til leiks eftir það!

West Ham United: Fabianski, Johnson, Zouma, Ogbonna (Dawson 22. mín.), Cresswell, Soucek, Rice, Bowen (Coufal 84. mín.), Fornals, Benrahma (Masuaku 86. mín.) og Antonio. Ónotaðir varamenn: Lanzini, Areola, Noble, Diop, Fredericks og Král.

Mörk West Ham United: Alisson Becker, sm, (4. mín.), Pablo Fornals (67. mín.) og Kurt Zouma (74. mín.).

Gul spjöld: Tomas Soucek.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho (Minamino 80. mín.), Oxlade-Chamberlain (Thiago 68. mín.), Salah, Jota Origi (76. mín.) og Mané. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Tsimikas, Phillips, N. Williams og Morton.

Mörk Liverpool: Trent Alexander-Arnold (41. mín.) og Divock Origi (83. mín.).

Gult spjald: Trent Alexander-Arnold.

Áhorfendur á London leikvanginum: 59.909.

Maður leiksins: Trent Alexander-Arnold. Hann var reyndar ekki alltaf nógu vel á verði í vörninni en hann skoraði glæsilegt mark og lagði upp annað. Að auki lagði hann upp færi sem hefði átt að verða að marki og jafna leikinn. 

Jürgen Klopp: Þetta hefði ekki átt að gerast. Við hefðum átt að stjórna leiknum áfram eins og við gerðum í fyrri hálfleik.  

Fróðleikur

- Þetta var fyrsta tap Liverpool í deildinni á þessu keppnistímabili.

- Liverpool hafði fyrir leikinn leikið 25 leiki án taps í öllum keppnum. Að spila 25 leiki án taps var jöfnun á félagsmeti. 

- Trent Alexander-Arnold skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Divock Origi skoraði þriðja mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Þetta var fyrsta tap Liverpool á London leikvanginum frá því West Ham United hóf að leika á honum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan