| Sf. Gutt

Frábær sigur í frábærum leik!


Rauði herinn hóf 46. Evrópuvegferð sína með frábærum sigri í frábærum leik. Liverpool vann AC Milan 3:2 á Anfield Road eftir að hafa lent undir. Ekki í fyrsta sinn sem Liverpool snýr tapstöðu við á móti AC Milan. Evrópukvöld eins og þau gerast best á Anfield.  

Það mátti búast við breytingum á liði Liverpool. Það kom ekki á óvart að Joe Gomez kæmi inn í liðið fyrir Virgil van Dijk en líklega átti ekki nokkur maður von á því að sjá Divock Origi leiða sóknina. Sadio Mané var settur á bekkinn. 

Það fundu allir að hver einasti maður innan vallar sem utan voru tilbúnir í slaginn þegar þjóðsögurinn var sunginn fyrir leik. Leikmenn Liverpool komu harðákveðnir til leiks og lengst af í fyrri hálfleik komast AC Milan ekki fram yfir miðju. Á 5. mínútu sendi Andrew Robertson á Diogo Jota sem skotfæri í vítateginum en varnarmaður bjargaði naumlega. Fjórum mínútum seinna komst Liverpool yfir. Mohamed Salah sendi á Trent Alexander-Arnold sem braust inn í vítateiginn. Hann ætlaði að gefa fyrir en boltinn fór í Fikayo Tomori, sem henti sér fyrir, og sveif af honum í markið. Sjálfsmark en undirbúningur Mohamed og Trent stórgóður.

Fimm mínútum seinna dæmdi dómarinn víti þegar skot Andrew fór í hendi varnarmanns. Rétt dæmt því boltinn hefði farið á markið ef hendinn hefði ekki verið í veginum. Mohamed tók vítið en Mike Maignan gerði sér lítið fyrir og varði. Skot Mohamed var fast en ekki nógu nákvæmt. Fyrir þessa spyrnu hafði Mohamed skorað úr 17 vítum í röð!

Þetta sló Liverpool ekki út af laginu og hver sóknin rak aðra undir öflugri hvatningu áhorfenda. Eftir hálftíma náði Mohamed skoti sem Mike sló yfir. Yfirburðir Liverpool voru algjörir en allt snerist á hvolf á lokamínútum hálfleiksins. 

Á 42. mínútu endaði laglegt spil fram vinstra megin með því að Ante Rebic fékk boltann utan við markteiginn og skoraði örugglega. Tveimur mínútum seinna endurtók sagan sig. Aftur sótt fram vinstra megin. Boltinn var sendur fyrir markið á mann í dauðafæri. Andrew bjargaði skotinu á marklínu en Brahim Diaz fylgdi á eftir og skoraði í autt markið. Lygileg umskipti og vörn Liverpool illa á verði. Ítalarnir fögnuðu forystu í hálfleik sem enginn átti von á að yrði og hvað þá þeir!

Liverpool hóf síðari hálfleik af krafti og eftir þrjár mínútur var staðan orðin jöfn. Mohamed fékk boltann fyrir utan vítateiginn og gaf á Divock Origi. Hann vippaði boltanum yfir vörnina á Mohamed sem þangað var kominn. Mike hikaði í markinu og Mohamed sneiddi boltann framhjá honum á snilldarlegan hátt. Magnað mark hjá Egyptanum sem bætti þarna upp fyrir vítaspyrnuna sem fór forgörðum. 

Áfram hélt Liverpol að sækja og á 69. mínútu var endurkoman fullkomnuð. Diogo komst í færi en varnarmaður bjargaði í horn. Trent tók hornið sem var frá hægri. Varnarmaður skallaði frá beint út á Jordan Henderson sem tók boltann viðstöðulaust í vítateigsboganum og þrumaði honum neðst í vinstra hornið. Allt gekk af göflunum af fögnuði. Gullfallegt mark hjá fyrirliðanum sem átti frábæran leik!

Það var drjúgur tími til leiksloka en sigri Liverpool var aldrei ógnað. Liverpool spilaði af yfirvegun og sigurinn var fyllilega sanngjarn. Sigrinum var vel fagnað og hann var sannarlega mikilvægur. Liverpool spilaði á köflum frábærlega en einbeitingarleysi hleypti AC Milan inn í leikinn. En liðið sýndi styrk sinn og eitt Evrópukvöldið enn bætist í minningasafnið!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, Gomez, Robertson Henderson (Milner 84. mín.), Fabinho, Keïta (Thiago 71. mín.), Salah (Oxlade-Chamberlain 84. mín.), Origi (Mané 63. mín.) og Jota (Jones 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Kelleher, van Dijk, Konaté, Minamino, Tsimikas og Phillips.

Mörk Liverpool: Fikayo Tomori, sm, (9. mín.), Mohamed Salah (48. mín.) og Jordan Henderson (69. mín.).

Gult spjald: James Milner. 

AC Milan: Maignan, Calabria, Kjær, Tomori, Hernández, Bennacer (Tonali 71. mín.), Kessié, Saelemaekers (Florenzi 62. mín.) Díaz, da Conceição Leão (Giroud 62. mín.) og Rebic (Maldini 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Tatarusanu, Ballo-Touré, Romagnoli, Kalulu, Gabbia og Jungdal.

Gul spjöld: Ismaël Bennacer og Brahim Diaz.

Mörk AC Milan: Ante Rebic (42. mín.) og Brahim Diaz (44. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road:
51.445.


Maður leiksins: Jordan Henderson. Fyrirliðinn var frábær og dró liðið sitt áfram eins og hans er von og vísa. Hann skoraði svo gullfallegt sigurmark!

Jürgen Klopp:
Leikurinn sýndi hversu riðillinn er sterkur. Það var rosalega gott að vinna leikinn í kvöld því það er á hreinu að öll stig skipta máli hvað það varðar að komast upp úr riðlinum.

Fróðleikur  

- Þetta er 46. keppnistímabil Liverpool á Evrópumótum. 

- Þar af er þetta 26. leiktíð Liverpool í keppni þeirra bestu. Sem sagt Evrópukeppni meistaraliða eða Meistaradeild. 

- Mohamed Salah skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni. 

- Jordan Henderson opnaði markareikning sinn á keppnistímabilinu. 

- Naby Keita lék sinn 80. leik með Liverpool. Hann hefur skorað sjö mörk. 

- Divock Origi og Curtis Jones spiluðu í fyrsta sinn á þessari leiktíð. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan