| Sf. Gutt

Spáð í spilinLiverpool v AC Milan

Evrópuvegferð Rauða hersins númer 46 hefst annað kvöld. Liverpool og AC Milan leiða saman hesta sína. Þetta verður í fyrsta sinn sem þessi stórlið mætast í Evrópukeppni utan úrslita. Það er merkileg staðreynd. Liverpool hefur unnið keppni þeirra bestu sex sinnum og AC Milan sjö sinnum. Sannarlega stórslagur!

Liðin hafa aðeins leikið saman tvívegis á Evrópumótum. Býsna merkilegt því Liverpool er að hefja sitt 46. keppnistímabil á Evrópumótunum og AC Milan á líka fjölda leiktíða að baki. Leiðir þessara stórliða hafa aðeins legið saman í úrslitaleikjum. Úrslitaleikurinn 2005 í Istanbúl gleymist engum sem sá hvort sem eiga í hlut stuðningsmenn Liverpool, AC Milan eða hlutlausir. Úrslitaleikurinn í Aþenu 2007 er ekki jafn eftirminnilegur þó Liverpool hafi leikið betur. AC Milan lék jú miklu betur í Istanbúl en í Aþenu. Knattspyrnan getur verið undarleg. Í úrslitaleik skiptir öllu að vinna og sigrarnir standa upp úr þó svo það sé alltaf afrek að komast í úrslitaleik.

Það hefur gengið á ýmsu hjá AC Milan síðustu árin og liðið varð síðast ítalskur meistari 2011. Liðinu gekk býsna vel á síðasta keppnistímabili og hefur byrjað þessa leiktíð af krafti. Liverpool hefur reyndar líka byrjað leiktíðina mjög vel á Englandi. Liverpool þarf að byrja þennan erfiða riðil af af fullu afli. AC Milan, Atletico Madrid og Porto eru ekki nein lömb að leika við og sigur annað kvöld myndi gera mikið fyrir áframhaldið. 

Það var mikið áfall að Harvey Elliott skyldi verða fyrir alvarlegum meiðslum um helgina. Ekki að hann teljist lykilmaður heldur eru svona meiðsli alltaf ákveðið áfall fyrir liðsfélaga. Leikjadagskráin í september er stíf og kannski verður liðinu eitthvað breytt milli leikja. Þó má telja líklegt að bestu mennirnir verði sendir til leiks á móti ítalska liðinu.


Andrúmsloftið á Anfield verður rafmagnað. Það mun hjálpa Liverpool til að byrja 46. Evrópuvegferðina vel. Liverpool vinnur 2:0. Sadio Mané vantar eitt mark til að komast í 100 fyrir Liverpool. Það kemur annað kvöld! Mohamed Salah skorar hitt markið. 

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan