| Sf. Gutt

Keppni hætt í Skotlandi

Keppni er lokið í efstu deild í Skotlandi. Ákveðið var að hefja keppni ekki á nýjan leik en henni var hætt í mars þegar Covid 19 tók völdin. Það þýðir að Celtic er meistari níunda árið í röð! Celtic hefur einu sinni áður unnið deildina níu sinnum í röð og Rangers náði einu sinni að afreka það. 


Steven Gerrard og lærisveinar hans hjá Rangers urðu í öðru sæti annað árið í röð. Liðið stóð mjög vel að vígi um áramót og veitti Celtic harða keppni á toppnum. En eftir vetrarfrí fór allt á verri veg og Celtic náði öruggri forystu. Liðið hafði 13 stiga forskot þegar keppni var hætt. Ákveðinn reikniregla yfir meðaltalsstig var notuð til að reikna út lokastöðuna. Samkvæmt henni endaði Celtic með 80 stig en Rangers 67. 

Hearts endaði neðst í deildinni og er dæmt til að falla. Hermt er að forráðamenn liðsins stefni á málaferli til að hnekkja þessum dómi. 

Skotar fóru þarna að ráði Frakka og Belga. Sem sagt að slíta móti, láta lokastöðu gilda og krýna meistara.  Ef keppni yrði hætt á Englandi yrði þessi háttur hafður á. Ekki kemur til álita að ógilda mótið!

Nefna má að í Hollandi var önnuð aðferð viðhöfð. Þar var mótinu slitið og það strokað út ef svo mætti segja. Þar með voru engir meistarar krýndir fyrir keppnistímabilið 2019/20.

Þýska knattspyrnan fór í gang um helgina og var spilað í tveimur efstu deildunum. Á Englandi, Spáni og Ítalíu á að gera það sama. Sem sagt að ljúka deildunum til að fá fram úrslit.  


Celtic vann skoska Deildarbikarinn fyrr á leiktíðinni en ekki er ljóst hvort bikarkeppnin verður kláruð. Liðið hefur unnið Þrennu á Skotlandi síðustu þrjú keppnistímabil. Brendan Rodgers, fyrrum framkæmdastjóri Liverpool, vann tvær af Þrennunum og Deilarbikarinn í fyrra áður en hann fór til Leicester City.  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan