| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er á suðurströnd Englands þegar leikið verður gegn Bournemouth. Leikurinn hefst klukkan 15:00 laugardaginn 7. desember.

Jürgen Klopp stillti upp nokkuð breyttu liði í sigrinum frábæra á Everton og því má gera ráð fyrir að það sama verði uppá teningnum nú. Mohamed Salah, Roberto Firmino og Jordan Henderson koma líklega inn ásamt Alisson sem var í leikbanni. Það er svo spurning hvort þeir Sadio Mané og Gini Wijnaldum fái hvíld frá byrjunarliðinu, það gæti verið mikilvægt að hafa þá 100% klára í leikinn mikilvæga á þriðjudaginn gegn Salzburg í Meistaradeildinni. Það kemur í ljós hvernig þetta verður alltsaman en Klopp er óhræddur við að breyta sínu liði sem er gott mál og mikilvægt í þessu brjálaða leikjaálagi sem er í desember.

Heimamenn í Bournemouth hafa ekki verið að ná í góð úrslit í síðustu leikjum og síðustu fjórir hafa allir tapast. Síðast þegar liðið tapaði fimm leikjum í röð var liðið í League One, nánar tiltekið í mars árið 2013. Í ofanálag eru mikil meiðsli í leikmannahóp þeirra en alls eru 8 leikmenn á meiddir og Harry Wilson, þeirra markahæsti maður og lánsmaður frá Liverpool, má auðvitað ekki spila þennan leik. Leikmennirnir sem eru meiddir eru: Junior Stanislas, Andrew Surman, Joshua King, Lloyd Kelly, Charlie Daniels, David Brooks, Steve Cook og Adam Smith. En þrátt fyrir öll þessi meiðsli ætti Eddie Howe að ná að þjappa hópnum saman og krefjast þess að menn hætti nú að tapa leikjum.

En verkefni heimamanna er auðvitað ekki létt. Okkar menn hafa ekki tapað í deildinni það sem af er og félagsmet var sett á miðvikudaginn þegar 32. deildarleikurinn án taps leit dagsins ljós. Helsta áhyggjuefnið er að liðinu virðist ómögulegt að halda markinu hreinu og það væri kærkomið að ná því á erfiðum útivelli. Það hefur tekist að halda hreinu í síðustu tveim leikjum á Dean Court, heimavelli Bournemouth. Á síðasta tímabili vannst flottur 4-0 sigur þar sem Salah skoraði þrennu og eitt markanna var sjálfsmark. Liverpool hafa unnið síðustu fjórar viðureignir liðanna í deildinni og haldið hreinu í þeim öllum, markatalan 14-0. Engin ný meiðsli litu dagsins ljós eftir Everton leikinn samkvæmt Klopp en sem fyrr eru þeir Joel Matip, Fabinho og Nathaniel Clyne.

Spáin að þessu sinni er að Liverpool tekst að bæta enn einum sigurleiknum við, lokatölur verða 0-2 og ég bind vonir við að Mohamed Salah reimi á sig markskóna á ný og setji bæði mörkin.

Fróðleikur:

- Sadio Mané er markahæstur Liverpool manna á tímabilinu með 13 mörk í öllum keppnum, þar af níu í deild.

- Harry Wilson er eins og áður sagði markahæstur hjá Bournemouth með sex mörk.

- Gini Wijnaldum gæti spilað deildarleik númer 120 fyrir félagið.

- Andy Robertson hefur spilað ákkúrat 100 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum.

- Bournemouth sitja í 14. sæti deildarinnar með 16 stig.

- Okkar menn eru sem fyrr í efsta sæti með 43 stig.





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan