| Grétar Magnússon

Gullboltinn 2019

Gullboltinn var afhentur í gær, eins og flestir vita var Virgil van Dijk talinn líklegur handhafi knattarins að þessu sinni en hann varð að gera sér að góðu 2. sætið á eftir Lionel Messi.

Athöfnin fór fram í París á mánudagskvöldið og sem fyrr eru það blaðamenn út um allan heim sem velja þann sem er bestur. Það kom auðvitað fáum á óvart að Lionel Messi skyldi vera valinn bestur en þetta er hvorki meira né minna en sjötta skiptið sem hann hlýtur Gullboltann. Það er þó mikill heiður fyrir van Dijk að vera í 2. sæti og margir samherjar hans voru einnig á listanum að þessu sinni.

Árið hefur verið farsælt hjá Hollendingnum en í vor var hann valinn leikmaður ársins af leikmannasamtökum Englands, leikmaður ársins í úrvalsdeildinni og knattspyrnumaður ársins hjá UEFA. Þetta er einnig í fyrsta sinn síðan árið 2008 að leikmaður frá Liverpool er í topp þremur af bestu leikmönnum heims hjá France Football en síðast var það Spánverjinn Fernando Torres sem var þriðji á listanum.

Virgil van Dijk er einnig aðeins þriðji leikmaðurinn í sögu félagsins sem er í fyrsta eða öðru sæti í keppninni um Gullboltann en árið 1983 var Kenny Dalglish í öðru sæti og árið 2001 vann Michael Owen þessi virtu verðlaun.

,,Maður verður að bera virðingu fyrir frábærum leikmönnum. Ég var nálægt því en það var einhver annar sem var örlítið betri," sagði van Dijk í viðtali eftir verðlaunaafhendinguna.

,,Ég er mjög stoltur af því sem ég hef áorkað á árinu með Liverpool og Hollandi. Vonandi tekst mér að gera jafn vel á því næsta. Ég hafði í raun aldrei ímyndað mér að ég gæti átt möguleika á Gullboltanum þangað til ég var tilnefndur. Það segir mjög mikið um hvernig ferill minn hefur verið, þetta hefur aldrei verið auðvelt. Ég sprakk út sem leikmaður frekar seint en gafst aldrei upp á draumum mínum. Ég þurfti að leggja mjög hart að mér í hverju skrefi."

,,Ég er mjög glaður að vera á þeim stað sem ég er á núna. Að vera hér fyllir mig stolti og ég vil leggja enn harðar að mér til að vera vonandi aftur hér á næsta ári."

Eins og áður sagði röðuðu leikmenn Liverpool sér á listann sem telur alls 30 leikmenn. Sigurinn í Meistaradeild Evrópu hafði þar auðvitað mikið að segja en fjórir leikmenn félagsins voru í sjö efstu sætum listans. Hér fyrir neðan má sjá röðun okkar manna á listanum.

2. – Virgil van Dijk
4. – Sadio Mane
5. – Mohamed Salah
7. – Alisson Becker
17. – Roberto Firmino
19. – Trent Alexander-Arnold
=26. – Georginio Wijnaldum

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan