| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool mætir Chelsea á Stamford Bridge á sunnudaginn. Chelsea er að rétta úr kútnum eftir skrykkjótta byrjun og Liverpool kannski í sárum eftir fyrsta tap tímabilsins í vikunni. 

Liverpool tapaði sínum fyrsta leik í vetur í Napoli á þriðjudaginn. Úr því að fyrsti tapleikurinn þurfti endilega að koma þá var fínt að fá hann á útivelli í riðlapenni CL. Það er hreint enginn heimsendir, það sannaði Liverpool rækilega á síðustu leiktíð þegar útivallaformið í Evrópu sveik okkur ítrekað en bikarinn varð samt okkar þegar upp var staðið. Guð láti gott á vita. Amen.

Chelsea hefur verið að finna formið í deildinni eftir smá bras, en tapaði að vísu fyrir Valencia í CL í vikunni. Tammy Abraham hefur slegið í gegn í framlínunni og er markahæstur í deildinni með 7 mörk ef ég man rétt. Hann hefur verið með yfirlýsingar fyrir leikinn á sunnudaginn, ætlar að taka reiðina vegna tapsins gegn Valencia út á Liverpool. Verði honum að góðu. 

Hjá Liverpool er í sjálfu sér allt í sóma, þrátt fyrir leiðinda tap á þriðjudaginn. Andy Robertson hefur verið eitthvað tæpur og virtist ekki alveg ganga á öllum í vikunni. Vonandi er ekkert of mikið að angra hann, annars gætum við hugsanlega munstrað Milly eða Gomez á vintri kantinn til að gefa Robbo smá breik.

Alisson, Keita og Origi eru einu meiddu aðalliðsmennirnir. Það er ævintýri líkast að liðið hafi ekki tapað einu einasta stigi sem skrifa má á fjarveru Alisson, slík hefur frammistaða Adrían verið. Ekki á nokkurn hátt hægt að kenna honum um tapið gegn Napoli. Origi og Keita eru ekki byrjunarliðsmenn alla jafna, þannig að það er ekki hægt að segja annað en meiðslastaðan sé býsna góð.

Það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi leiksins á sunnudaginn. Þetta verður einn sá erfiðasti í vetur. Chelsea er til dæmis liða best í að vinna topplið deildarinnar. Lið sem hefur byrjað daginn á toppi deildarinnar hafa 18 sinnum endað daginn á að tapa fyrir Chelsea, ekkert annað lið státar af annarri eins "toppbana" tölfræði. 

Ég veit ekkert hvernig Klopp stillir upp liðinu á morgun. Það verður þó væntanlega óbreytt vörn og mér finnst Henderson, Fabinho og Wijnaldum líklegastir til að byrja á miðjunni. Framlínan velur sig svo sjálf. 

Eigum við ekki bara að segja að það hafi verið ágætt að fá skell í vikunni, enn sem komið er grátum við það ekkert voðalega, við fáum fjölmörg tækifæri í viðbót til að komast upp úr riðlinum. Í Úrvalsdeildinni viljum við hinsvegar alls ekki misstíga okkur og vonandi tökum við ekki upp á því á morgun. 

Ég spái 2-1 sigri Liverpool. Salah og Henderson með mörkin. 

YNWA
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan