| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool mætir Leicester á Anfield í kvöld og er í dauðafæri að ná 7 stiga forystu í Úrvalsdeildinni. Sem er auðvitað algjör ruglstaða að vera í! 

Það er alveg magnað að maður skuli vera að segja það upphátt að við eigum sjéns á að hafa 7 stiga forystu í deildinni í lok janúar. Hugsið ykkur hvað við höfum oft verið farin að ganga hokin um þetta leyti. 

Ég nenni ekki að eyða mörgum orðum í þetta Leicester lið, það getur svo sannarlega gert okkur lífið leitt ef því er að skipta. Liðið skellti til dæmis bæði Chelsea og Manchester City um jólin, en hefur að vísu tapað tveimur síðustu leikjum. 

Ég er meira til í að ræða okkar lið. Maður er auðvitað á hálfgerðu skýi þessa dagana en samt sem áður blikka ákveðnar viðvörunarbjöllur varðandi leikmannahópinn. Hægri bakvarðarstaðan gæti allavega orðið okkur erfið, en vonandi kostar það okkur ekki titilinn að hafa leyft Clyne að fara á lánssamning um áramótin. 

Joe Gomez verður enn lengur frá en í upphafi var talað um og James Milner er í banni þannig að líklegast verður Fabinho í hægri bakverðinum í kvöld, þ.e.a.s. ef hann verður leikfær en hann varð fyrir einhverju lítilsháttar hnjaski gegn Palace. Síðustu fréttir frá Liverpool herma að Van Dijk verði klár og það er nú eiginlega að verða það mikilvægasta hjá okkur, þvílíkur leikmaður. 
Ég er eins og alltaf frekar stressaður fyrir þennan leik og á alveg eins von á að Liverpool verði stirt í gang eftir pásuna undanfarið - og Dubai ferðina. Kannski eru menn líka þjakaðir af frammistöðukvíða, núna þegar allt er að falla með okkur. Hver veit, hver veit.....?

Ég get allavega ekki beðið eftir að setjast niður og horfa á leik, það er orðið allt of langt síðan. Ég þori samt ekki að spá, en mikið guðdómlega væri gaman að fara inn í febrúar með 7 stiga forskot á City. 

YNWA!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan