| Grétar Magnússon

Frábær sigur á Roma

Liverpool sigruðu Roma 5-2 á heimavelli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar.  Sigurinn hefði mátt vera stærri en spilamennska liðsins í leiknum skapaði ótal færi.  Undir lokin náðu Roma menn svo að skora tvö mörk og það er því ennþá spenna í einvíginu.

Það þarf ekkert að skrifa mikið um byrjunarlið Jürgen Klopp en hann stillti upp eins og allir vissu að liðið yrði.  Gestirnir byrjuðu leikinn betur, ógnuðu meira og voru töluvert meira með boltann.  En fyrsta færi féll Roberto Firmino í skaut þegar hann fékk sendingu innfyrir, lék upp að endamörkum hægra megin og skaut að marki en boltinn rúllaði framhjá markinu og enginn samherji náði til hans.  Á 18. mínútu urðu svo heimamenn fyrir skakkaföllum þegar Alex Oxlade-Chamberlain meiddist illa að því er virtist.  Hann fór í tæklingu út við hliðarlínu og meiddist á hné.  Hann gat ekki haldið leik áfram og Gini Wijnaldum kom inná í hans stað.  Við það virtist færast meiri áræðni í leik heimamanna og líklega hefur Wijnaldum fengið einhver ráð frá þjálfarateymi félagsins áður en hann kom inná.  Næsta færi var hinsvegar gestanna þegar Alexander Kolarov þrumaði að marki fyrir utan teig, Karius misreiknaði eitthvað flug boltans en náði að koma við hann þannig að hann small í þverslánni.  Eftir þetta var leikurinn meira og minna eign Liverpool.  Sadio Mané komst einn í gegn eftir sendingu innfyrir en margar slíkar sendingar voru reyndar í leiknum og skal engan undra þegar varnarlína Roma var svo hátt uppi á vellinum eins og raun bar.  En Mané skaut því miður yfir markið úr þessu dauðafæri.  Skömmu síðar fékk hann sendingu inná teiginn frá Mohamed Salah, Senegalinn var einn í teignum en hitti boltann illa og framhjá fór hann.  Hann náði þó að koma boltanum í markið stuttu síðar en það mark var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. 


Á 36. mínútu var ísinn svo brotinn með glæsilegu marki.  Boltinn vannst á miðjusvæðinu og Salah fékk sendingu inn á hægra vítateigshornið.  Enginn varnarmaður pressaði hann og hann lét því skotið ríða af, boltinn fór í slána og inn og allt ætlaði um koll að keyra á Anfield.  Salah fagnaði hinsvegar markinu ekki gegn sínum gömlu félögum. 


Liverpool tókst að bæta við marki fyrir leikhlé.  Hreinsun frá van Dijk barst upp völlinn á Salah sem náði valdi á boltanum og kom honum til Firmino.  Brasilíumaðurinn tók á rás í átt að marki ásamt Salah og sendi innfyrir á liðsfélaga sinn sem lyfti boltanum snyrtilega yfir Allison í markinu sem kom út á móti.  Staðan 2-0 í hálfleik og allt í góðu standi á Anfield.


Þjálfari Roma, Eusebio Di Francesco gerði eina breytingu í hálfleik þegar Patrik Schick kom inná fyrir Tyrkjann unga Cengiz Under en hann hafði haft sig lítið í frammi í leiknum.  Á 56. mínútu kom svo þriðja mark leiksins en fram að því hafði Liverpool gjörsamlega yfirspilað Rómverjana.  Salah fékk boltann úti hægra megin frá Alexander-Arnold og lék inní teiginn, sendi fyrir markið þar sem Sadio Mané brást ekki bogalistin og sendi hann boltann í markið.  Fimm mínútum síðar var staðan orðin 4-0.  Enn og aftur var Salah á ferðinni hægra megin, hann lék framhjá Jesus varnarmanni Roma léttilega og sendi boltann á fjærstöngina þar sem Firmino var mættur og skoraði.  Ekki voru heimamenn alveg hættir og fimmta markið kom á 68. mínútu.  Góð pressa skilaði sem fyrr mistökum hjá varnarmönnum og einn þeirra sendi boltann aftur fyrir endamörk.  James Milner tók hornspyrnuna og þar var Firmino mættur í teignum til að skalla í markið.  5-0 fyrir Liverpool og stemmningin rosaleg á Anfield !

Ítalirnir gáfust ekki upp, skiptu inná og gerðu einhverjar breytingar á uppstillingu sinni á vellinum.  Það skilaði þeim því miður tveim mörkum.  Fyrra markið kom á 81. mínútu þegar há sending kom inná teiginn, Lovren náði ekki til boltans með höfðinu og Edin Dzeko tók hann á brjóstið og þrumaði á nærstöngina framhjá Karius.  Fjórum mínútum síðar fengu svo Rómverjar vítaspyrnu sem margir töldu að hafi verið ódýr.  Nainggolan þrumaði að marki fyrir utan teig en þar var James Milner fyrir, boltinn fór í hendina á honum og dómarinn dæmdi umsvifalaust víti.  Úr því skoraði Perotti örugglega.  Eftir þetta hefðu Rómverjar jafnvel getað bætt við marki en það tóks sem betur fer ekki.  Allur vindur virtist úr Liverpool mönnum og Danny Ings, sem hafði komið inná fyrir Salah komst ekki inní leikinn.  Lokatölur voru því 5-2 og Roma menn telja sig klárlega eiga möguleika því eins og allir vita náðu þeir að snúa við taflinu gegn Barcelona á sínum heimavelli með því að sigra 3-0.  Við bindum þó sterkar vonir við að Liverpool takist að skora útivallarmark á miðvikudaginn eftir viku.

Liverpool:  Karius, Alexander-Arnold, Lovren, van Dijk, Robertson, Henderson, Milner, Oxlade-Chamberlain (Wijnaldum, 18. mín.), Mané, Salah (Ings, 75. mín.), Firmino (Klavan, 90. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Mignolet, Clyne, Moreno, Solanke.

Mörk Liverpool:  Mohamed Salah (35. og 45. mín.), Sadio Mané (56. mín.), Roberto Firmino (61. og 68. mín.).

Gul spjöld:  Alexander-Arnold, Lovren og Milner.

Roma:  Allison, Fazio, Manolas, Nunes Jesus (Perotti, 67. mín.), Florenzi, De Rossi (Gonalons, 67. mín.), Strootman, Kolarov, Ünder (Scick, 45. mín.), Nainggolan, Dzeko.  Ónotaðir varamenn:  Skorupski, Pellegrini, da Silva Peres, El Shaarawy.

Mörk Roma:  Edin Dzeko (81. mín.) og Diego Perotti (85. mín. víti).

Gul spjöld:  Fazio og Nunes Jesus.

Áhorfendur á Anfield:  51.236.

Maður leiksins:  Mohamed Salah heldur áfram að skora og leggja upp.  Það er nánast ekki hægt lengur að finna lýsingarorð fyrir þennan dreng.  Hann hefur nú skorað 43 mörk á tímabilinu hvorki meira né minna !

Jürgen Klopp:  ,,Ef ég á að vera hreinskilinn þá er mesta áfallið núna í búningsherberginu fréttir af meiðslum Oxlade-Chamberlain.  Að fá á sig tvö mörk er ekki eitthvað sem við vildum, ekki 100% en við breytum því ekki héðan af og við getum átt við það.  Svona er knattspyrnan.  Strákarnir spiluðu frábæran leik lengstum, jafnvel síðustu mínúturnar þegar við vorum að fá á okkur mörk."

Fróðleikur:

- Liverpool er aðeins annað liðið í sögu Meistaradeildarinnar sem skorar fimm mörk í undanúrslitum en Ajax gerðu það árið 1995 gegn Bayern Munchen.

- Liverpool er fyrsta liðið í sögu Meistaradeildarinnar sem er með þrjá leikmenn sem hafa skorað átta mörk eða meira í keppninni á einu tímabili.

- Mohamed Salah skoraði sitt 42. og 43. mark á leiktíðinni í öllum keppnum og sitt 9. og 10. mark í Meistaradeildinni.

- Sama gildir um Roberto Firmino hvað Meistaradeildina varðar en hann er einnig kominn með 10 mörk og alls 27 mörk.

- Sadio Mané skoraði sitt 8. mark í keppninni og er hann kominn með 18 mörk í öllum keppnum.

- James Milner setti met í Meistaradeildinni þegar hann lagði upp sitt 9. mark, komst hann þar með uppfyrir Wayne Rooney og Neymar.

- Mohamed Salah nálgast nú met Ian Rush yfir flest mörk skoruð fyrir Liverpool á einu tímabili.  Egyptinn er eins og áður sagði með 43 mörk en Rush skoraði 47 mörk tímabilið 1983-84.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan