| Grétar Magnússon

Coutinho ætlaði sér alltaf að spila

Philippe Coutinho var ekki í byrjunarliðinu gegn Stoke um liðna helgi vegna veikinda í miðri viku en hann hafði engan áhuga á að missa af leiknum og ætlaði sér alltaf að taka þátt í leiknum.

Jurgen Klopp sagði í viðtali eftir leik að Coutinho hefði misst þrjú kíló á þrem dögum vegna veikindanna og læknateymi félagsins vildi helst ekki láta Brasilíumanninn spila gegn Stoke.  Sem betur fer hafði Coutinho annað í hyggju, hann hitti liðsfélaga sína á hótelinu á laugardagsmorguninn og lýsti því yfir að hann væri klár í slaginn, sem betur fer.

,,Ég var beðinn um að vera heima vegna þess að mér leið ekki vel en ég vildi gera allt til þess að spila leikinn," sagði Coutinho.

,,Ég vildi vera hluti af liðinu.  Stjórinn ákvað að láta mig ekki byrja þar sem ég var ekki 100% tilbúinn en ég vildi auðvitað spila.  Þetta var mikilvægur sigur.  Það eru mörg stig eftir í pottinum sem við verðum að berjast fyrir og þessi þrjú voru mikilvæg."

Coutinho jafnaði metin á 70. mínútu leiksins og varð þar með markahæsti Brasilíumaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.  Þetta var hans þrítugasta mark og komst hann þar með uppfyrir landa sinn Juninho.  Landi þeirra beggja, Roberto Firmino tryggði svo sigurinn með frábæru marki örskömmu síðar og okkar menn halda því þriðja sæti deildarinnar enn sem komið er.

,,Ég er ánægður með þetta met," bætti Coutinho við.  ,,Ég vil halda áfram að spila og skora fyrir liðið og læra meira af stjóranum.  Þetta snerist ekki bara um mig og Roberto.  Allt liðið spilaði vel í seinni hálfleik, við sköpuðum okkur færi og náðum að skora tvö mörk.  Allt liðið var gott, ekki bara einstaklingarnir."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan