| Heimir Eyvindarson

Verðum að vera sterkari andlega

Brendan Rodgers segir að Liverpool liðið verði að ná betri andlegum og sálrænum styrk. Liðið geti vel spilað góðan fótbolta en hugarfarið sé enn of brothætt.

„Við höfum sýnt það í vetur að við getum spilað vel. Við erum taktískt, tæknilega og líkamlega sterkir en þegar kemur að sálrænu hliðinni þá erum við stundum í vandræðum", segir Rodgers í viðtali við Liverpool Daily Post. 

„Ef við ætlum að ná árangri þá verðum við að bæta okkur í þessum efnum."

„Í síðasta leik labbaði Southampton liðið í gegnum miðjuna hjá okkur og skoraði. Það sama var uppi á teningnum gegn Aston Villa í desember."

„Þetta er ekkert nýtt. Ég sá að liðið lenti í svona vandræðum á síðustu leiktíð líka. Skoðið bara markið sem Bolton skoraði á sínum heimavelli. Kevin Davies lallaði þá bara í gegn og skoraði. Sama gerðist gegn Newcastle úti. Við verðum að laga þetta."

„Ég legg alltaf áherslu á að við pressum vel og séum aggressívir í pressunni. Þegar við náum því þá spilum við vel. Það er svo einfalt. Ef við náum ekki upp pressu þá erum við yfirleitt lélegir."

„Við erum að verða gott fótboltalið. Getum spilað góða vörn og góða sókn, en það er þessi andlegi þáttur sem er ekki í lagi og hefur ekki verið lengi. Við vitum ekki hvað veldur því, en við erum að vinna að lausn með leikmönnunum og starfsliðinu. Það þarf að ræða málin og reyna að breyta þessu." 

Liverpool liðinu hefur gengið vel frá því í nóvember, eftir erfiða byrjun undir stjórn Rodgers. Liðið spilar léttan og skemmtilegan bolta og skorar mikið af mörkum, en hefur fengið of mikið af mörkum á sig. Ef liðið skorar 3 mörk á móti Aston Villa á morgun slær það met Liverpool liðsins frá leiktíðinni 1995-1996 sem skoraði 61 mark í 31 leik. 

„Þetta snýst um jafnvægi. Við erum nálægt því að skora jafnmikið af mörkum og liðið gerði leiktíðina 1995-1996, en við fáum líka mikið af mörkum á okkur. Rétt eins og það lið. Þegar ég kom hingað þá settum við okkur það markmið að skora fleiri mörk. Það hefur tekist, en Róm var ekki byggð á einum degi. Þetta tekur tíma."

„Við verðum líka að sýna leikmönnum skilning og sanngirni. Það tekur tíma að venjast nýjum aðferðum og áherslum. Nú finnst okkur að liðið hafi náð ágætum tökum á leikstílnum, en þá er þessi andlegi þáttur eftir."

„Í síðustu umferð töpuðum við illa fyrir Southampton, eftir gott gengi leikina þar á undan. Það sem maður gerir eftir svoleiðis leik er að loka hurðinni pg reyna að hugsa ekki mikið um leikinn fyrstu 48 tímana þar á eftir. Við gerðum það. Síðan snerum við okkur að því að greina leikinn. Reyndar ekki bara leikinn, heldur líka vikuna fyrir leikinn. Vonandi skilar þessi vinna okkur einhverjum árangri."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan