| Sf. Gutt

Þrenna fyrirliðans fastnegldi sætan sigur!

Nú kom að því að allt gekk upp í deildarleik. Steven Gerrard skoraði þrennu og fastnegldi sætan sigur Liverpool á Everton! Liverpool lék sinn besta leik á keppnistímabilinu, tók Everton í gegn og vann 3:0 á mögnuðu kvöldi á Anfield Road.

Það var gríðarleg spenna í loftinu á Anfield þegar leikmenn Liverpool og Everton gengu til leiks í kvöld. Liverpool hafði aðeins unnið einn leik á árinu en Everton hafði ekki tapað í síðustu níu leikjum. Það var því mikið álag á leikmönnum Liverpool og ekki dugði annað en að ná deildarsigri. Fyrir utan að ekki mátti láta Everton komast upp með að gera neinn óskunda!

Liverpool hóf leikinn vel og á 7. mínútu braust Steven Gerrard inn í vítateiginn. Tim Howard skutlaði sér niður og varði en boltinn hrökk út til Jordan Henderson. Hann skaut strax en Jack Rodwell gerði vel og henti sér fyrir boltann. Everton náði sinni fyrstu sókn tveimur mínútum seinna. Leighton Baines lék laglega á tvo leikmenn Liverpool vinstra megin, lék inn í vítateiginn og sendi út á Steven Pienaar en skot hans fór sem betur fer langt yfir. 

Á 12. mínútu sparkaði Jose Reina út. Andy Carroll fleytti boltanum áfram á Luis Suarez sem tók boltann á lofti og skaut viðstöðulaust á markið en Tim varði vel. Þetta var langt frá því síðasta skiptið sem þeir Andy og Luis náðu vel saman í leiknum og þetta var besti leikur þeirra saman hjá Liverpool. Mikil barátta var í leiknum eins og vænta mátti og hvorugt liðið gaf tommu eftir. Everton styrktist heldur þegar leið á hálfleikinn en það var Liverpool sem komst yfir á 34. mínútu.

Liverpool náði góðri sókn og hraður samleikur endaði með því að Martin Kelly fékk boltann við hægra vítateigshornið. Hann náði góðu skoti sem Tim gerði vel í að verja. Hann hélt ekki boltanum og Martin sótti að honum en Tim náði að slæma fæti í boltann og koma honum frá. Hann fór þó ekki langt og Steven Gerrard fékk hann við vítateigslínuna. Fyrirliðinn sýndi mikla yfirvegun og lyfti boltanum í markið yfir varnarmann Everton á marklínunni. Frábærlega gert og Steven og allir Rauðliðar gengu af göflunum af fögnuði. Ísinn brotinn en nú þurfti að halda vel á spilum og gera út um leikinn en það hefur oft vantað á leiktíðinni.
 
Martin Kelly, sem átti frábæran leik, var ekki fjarri því að hnykkja á því á 38. mínútu. Jordan Henderson sendi þá fram á Martin sem lék inn í vítateiginn en skot hans fór rétt framhjá. Everton fékk loks færi rétt á eftir en Jose Reina varði skalla Denis Stracqualursi af öryggi. Liverpool hélt því einu marki í forystu þegar leikhlé hófst. 

Everton mætti af miklum krafti í síðari hálfleikinn en eftir sex mínútur lá boltinn í marki þeirra og þar með var staða Liverpool orðin töluvert tryggari. Jordan vann boltann við miðjuna og sendi fram á Luis. Hann lék upp að endamörkum hægra megin, lék á tvo varnarmenn en vék svo frá þegar Steven mætti og þrykkti boltanum upp í þaknetið rétt utan markteigs. Aftur frábært mark og vel að því staðið!

Rétt á eftir munaði litlu að Andy skorað. Aftur var Luis á ferðinni og nú hægra megin. Hann sendi á þann stóra en skot hans fór rétt framhjá fjærstönginni. Enn liðu nokkur andartök og Stewart Downing sendi góða sendingu frá vinstri en Martin Kelly náði ekki til boltans rétt fyrir framan mitt mark. 

Á 60. mínútu gerðust Bláliðar ágengir. Jack náði föstu skoti en Jose Enrique spyrnti frá úr markteignum áður en verr fór. Eftir þetta má segja að Liverpool hafi ekki verið í vanda. Reyndar var alltaf hætta á að Everton kæmist inn í leikinn með marki en þeir fengu ekki færi á því sem heitið gat. Þess í stað var það Liverpool sem var nær því að skora þótt opin færi sköpuðust ekki.

Það dró smá saman nær leikslokum og allt útlit var á að þessi tvö mörk myndu vera þau einu en það var eitt eftir enn og það kom á síðustu mínútu viðbótartíma. Varamaðurinn Royston Drenthe datt á miðjum vellinum og missti boltann. Steven hirti boltann eins og elding og sendi fram á Luis. Hann lék inn í vítateiginn vinstra megin, fór framhjá varnarmanni og renndi boltanum svo þvert fyrir á Steven sem smellti honum upp í þaknetið fyrir framan The Kop. Allt trylltist endanlega hjá Rauðliðum, þrenna hjá fyrirliðanum og sætur sigur Liverpool fastnegldur!

Þetta var stærsti heimasigur Liverpool í deildinni á keppnistímabilinu og sá fyrsti á Anfield á árinu. Kenny Dalglish brosti breitt, eins og aðrir Rauðliðar, eftir leikinn. Hann hefur oft, á leiktíðinni, talað um að góðir leikir Liverpool hafi ekki hlotið verðskuldaða niðurstöðu en nú kom það. Liverpool lék gríðarlega góða knattspyrnu, skoraði þrjú mörk og vann sanngjarnan sigur!     
      
Liverpool: Reina, Kelly, Skrtel, Carragher, Enrique, Henderson (Kuyt 72. mín.), Gerrard, Spearing, Downing, Carroll og Suarez. Ónotaðir varamenn: Doni, Rodriguez, Coates, Adam, Shelvey og Flanagan.
 
Mörk Liverpool:
Steven Gerrard (34., 51. og 90. mín.).

Gult spjald: Jose Enrique.
 
Everton: Howard, Hibbert, Jagielka, Distin, Baines, Coleman (Drenthe 61. mín.), Rodwell, Fellaini, Pienaar, Stracqualursi (Osman 61. mín.) og Anichebe (Jelavic 61. mín.). Ónotaðir varamenn: Mucha, Heitinga, Cahill og Neville.
 
Gul spjöld: Steven Pienaar, Leighton Baines, Royston Drenthe og Tony Hibbert.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 44.921.
 


Maður leiksins:
Steven Gerrard. Steven brýndi sína menn hressilega fyrir leikinn og hvatti þá til að rífa sig upp eftir dauflega leiki upp á síðkastið. Þeir gerðu það allir sem einn og Steven fór sjálfur fyrir liðinu, sýndi algjöran stórleik og skoraði þrjú frábær mörk. Algjörlega mögnuð kvöldstund hjá Steven!

Kenny Dalglish: Þetta var leikur liðsheildarinnar. Steven fær auðvitað fyrirsagnirnar og réttilega en hann mun fyrstur segja að hann hefði ekki náð að skora þrjú mörk upp á eigin spýtur. Úrslitin endurspegluðu hvernig liðið spilaði og við erum mjög ánægðir með að loksins höfum við uppskorið í samræmi við hversu vel við spiluðum. Það hefur ekki gerst nógu oft.

                                                                            Fróðleikur

- Steven Gerrard skoraði þrennu og hefur þar með skorað átta mörk á leiktíðinni.
 
- Steven Gerrard varð fyrstur leikmanna Liverpool til að skora þrennu gegn Everton í deildarleik frá því Ian Rush skoraði fjögur mörk á Goodison Park í nóvember 1982. Liverpool vann þann leik 0:5 og skoraði Mark Lawrsenson fimmta markið.

- Steven er aðeins fimmti leikmaðurinn í sögu Liverpool til að skora þrennu gegn Everton á Anfield. 

- Fred Howe gerði það síðast í september 1935 þegar Liverpool vann 6:0! Reyndar skoraði Fred fjögur mörk og Gordon Hodgson skoraði hin tvö mörkin.

- Steven er búinn að skora átta mörk á ferli sínum gegn Everton.
 
- Þriðja mark Steven var 300. mark Liverpool á móti Everton í öllum keppnum.
 
- Þetta var 217. leikur Liverpool og Everton í öllum keppnum.
 
- Liverpool vann Everton 0:2 á Goodison Park í haust. Þá skoruðu Andy Carroll og Luis Suarez.

- Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Anfield í deildinni á árinu.

- Liverpool vann þarna stærsta deildarsigur sinn á heimavelli á leiktíðinni.  

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Metro.co.uk.

Hér eru
 myndir úr leiknum af vefsíðu Guardian.

Hér er viðtal við Kenny Dalglish.

Hér er viðtal við Steven Gerrard.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan