| Grétar Magnússon

Glen útskýrir hvernig hann hélt ró sinni

Glen Johnson fékk það hlutverk að taka vítaspyrnu gegn Cardiff á sunnudaginn og kom það mörgum á óvart að sjá hann stíga upp og taka fimmtu spyrnu liðsins.  Hann segir hér frá því hvernig hann hélt sér rólegum í allri spennunni.

Steve Clarke, þjálfari aðalliðsins, kom að máli við hann áður en vítakeppnin hófst.

,,Clarkey kom til mín og ég sagði já," sagði Glen í viðtali við opinberu heimasíðu félagsins.  ,,Ég reyndi bara að hugsa um ekki neitt eins mikið og ég gat og þetta var bara ég gegn markverðinum.  Ég horfði því bara niður í grasið og setti boltann í netið. Það er ekki flóknara en það. Sem betur fer dugði það okkur að taka bara fimm spyrnur."

Glen Johnson viðurkennir einnig að hluti af ákvörðun hans að koma til félagsins fyrir þremur árum síðan hafi verið að taka þátt í svona fagnaðarlátum eins og menn urðu vitni að á Wembley á sunnudaginn.

,,Maður kemur til Liverpool fyrir svona hluti. Þetta er stórkostlegt félag, við erum með stjörnuleikmenn hérna og þegar medalíurnar koma í hús verður allt mun skemmtilegra.  Orð fá þessu ekki lýst.  Þetta er ótrúlegt - þetta er það sem strákarnir hafa lagt svo hart að sér fyrir og ég held að við höfum átt það skilið.  Við spiluðum ekki mjög vel í leiknum þannig séð en ég held samt að það hafi aldrei verið spurning hvort liðið myndi vinna."

Bakvörðurinn notaði einnig tækifærið og þakkaði þeim þúsundum stuðningsmanna Liverpool sem fylktu liði á Wembley og sungu sig hása allan leikinn.  Glen vill nú verðlauna stuðningsmennina með annari ferð á Wembley.

,,Þetta er það sem maður þarfnast," sagði Johnson.  ,,Við erum mjög þakklátir fyrir stuðninginn og ég vona að þeir hafi notið þess.  Menn voru að fá krampa þegar nær dró leikslokum og þegar maður heyrir söngvana þá fær maður aukinn kraft sem fær mann til að halda áfram."

,,Það væri frábært að komast aftur á Wembley.  Þetta er það sem knattspyrnan snýst um. Að komast í úrslitaleiki og vinna þessa bikara.  Þetta er það sem maður vinnur fyrir alla daga."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan