| Sf. Gutt

Mávarnir skotnir niður á Anfield Road!

Liverpool raðaði inn mörkum þegar Mávarnir frá Brighton voru skotnir í kaf á Anfield Road. Liverpool vann stærsta sigur leiktíðarinnar 6:1 og komast áfram í átta liða úrslit F.A. bikarkeppninnar. Það verður því áfram bikarstemmning í kringum Liverpool og það er frábært!

Liverpool hefði ekki getað fengið betri byrjun því eftir fimm mínútur lá boltinn í marki Brighton. Stewart Downing komst inn í vítateiginn vinstra megin og náði skoti sem Peter Brezovan sló yfir. Steven tók hornið frá vinstri og hitti beint á Martin Skrtel sem sneyddi boltann, með höfðinu, við fjærstöngina aftur fyrir sig beinustu leið í mark. Vel gert hjá hinum grjótharða Slóvaka. Fátt gerðist svo þar til boltinn steinlá í marki Liverpool tólf mínútum seinna. Brighton fékk þá aukaspyrnu af hátt af rúmlega tuttugu metra færi. Tveir félagar Kazenga Lua Lua lögðu boltann fyrir hann og þrumuskot hans fór í gegnum varnarvegg Liverpool og neðst í markhornið án þess að Jose Reina ætti möguleika. Glæsilegt mark!

Hér eftir átti Liverpool leikinn með húð og hári þótt Brighton stæði sig vel fram að leikhléi. Á 27. mínútu braust Luis Suarez framhjá tveimur varnarmönnum og kom boltanum framhjá Peter í markinu en Inigo Calderon náði að bjarga á marklínu. Fjórum mínútum seinna eða svo sendi Steven Gerrard hárnákvæma sendingu á Andy Carroll en hann skallaði yfir úr mjög góðu færi. 

Á 41. mínútu braust Kazenga inn í vítateig Liverpool en skot hans fór í hliðarnetið. Tveimur mínútum síðar tók Steven Gerrard aukaspyrnu vinstra megin við vítateiginn. Skot hans var á markið en Peter sló boltann yfir. Mínútu fyrir leikhlé komst Liverpool yfir. Eftir horn frá hægri fékk Luis boltann. Hann náði góðu skoti sem Peter varði naumlega. Boltinn hrökk út í teig þar sem Glen Johnson skallaði að marki. Á marklínunni var Sam Vokes til varnar en boltinn fór af honum í Liam Bridcutt félaga sinn og í markið. Furðulegt mark en leikmönnum Liverpool var rétt sama þegar haldið var til leikhlés.

Síðari hálfleikurinn var einstefna að marki Mávana. Á 52. mínútu átti Steven skot sem ekki tókst vel og stefndi langt framhjá en boltinn fór í Jordan Henderson á leiðinni og færðist við það nær markinu en þó ekki nóg. Rétt á eftir komst Luis framhjá markmanni Brighton en varnarmaður náði að bjarga málum. Á 57. mínútu kom svo þriðja markið. Boltinn gekk hratt manna á milli út til vinstri á Stewart sem lék fram og sendi hárnákvæma sendingu fyrir á Andy Carroll sem skoraði með viðstöðulausu skoti úr miðjum vítateignum. Laglegt mark og loksins náði Stewart að leggja upp mark!

Hinn spræki Kazenga reyndi sitt besta litlu síðar, náði góðum spretti, gaf fyrir en enginn félagi hans var kominn nógu langt fram. Sóknir Liverpool voru þó linnulitlar og samleikur manna var oft með ágætum. Leikurinn var svo úti á 71. mínútu. Jordan sendi boltann fram á vítateiginn. Varnarmaður missti boltann yfir sig og Steven komst í upplagt færi. Peter varði þó frá honum og boltinn virtist vera á leið aftur fyrir en Steven náði honum og skaut rétt við endamörkin. Liklega hefði boltinn ekki farið í markið en Liam Bridcutt var svo ólánsamur að vera fyrir við marklínuna og af honum fór boltinn í markið! Annað mark hans fyrir Liverpool! 

Fjórum mínútum síðar skoraði leikmaður Brighton aftur og enn jókst forysta Liverpool! Luis sendi fyrir og ekki virtist nein hætta á ferðum því Lewis Dunk fékk boltann einn fyrir miðju marki. Hann hugðist ná betra valdi á boltanum áður en hann hreinsaði en það tókst óhöndlega hjá honum því hann missti boltann frá sér og í markið fyrir framan Kop stúkuna! Ótrúlegt atvik og sögulegt því aldrei áður í sögu F.A. bikarkeppninnar hefur sama lið skorað þrjú sjálfsmörk. Fimm mörk Liverpool en gestirnir voru búnir að skora þrjú!
 
Kenny Dalglish sendi nú þrjá varamenn til leiks fyrir þá Jordan, Steven og Stewart. Einn þeirra, Dirk Kuyt, var felldur inni í vítateig á 81. mínútu. Víti var réttilega dæmt og Kenny skipaði svo um að Luis skyldi taka það. Hann gerði það en Peter varði slaka spyrnu hans auðveldlega. Reyndar hélt hann ekki boltanum en það var bjargað í horn. Eftir það skallaði Dirk í þverslá.

Það fór þó ekki svo að Liverpool næði ekki einu marki í viðbót. Jose Enrique gaf fyrir, frá vinstri, yfir á fjærstöng þar sem Andy skallaði til baka á Luis sem stýrði boltanum í markið með höfðinu af örstuttu færi. Stærsti sigur Liverpool á seinni valdatíð Kenny Dalglish var staðreynd og dyggileg aðstoð varnar Brighton hjálpaði vissulega til en Liverpool lék samt mjög vel og sóknarleikurinn var upp á það besta. Að minnsta kosti komu sex mörk og Mávarnir sneru vængbrotnir heim frá Anfield í fyrsta sinn eftir leik í F.A. bikarnum. Bikarævintýrin eru ekki búin í ár!

Liverpool: Reina, Johnson, Carragher, Skrtel, Enrique, Henderson (Kuyt 76. mín.), Gerrard (Shelvey 76. mín.), Adam, Downing (Rodriguez 76. mín.), Suarez og Carroll. Ónotaðir varamenn: Doni, Coates, Spearing og Kelly.
 
Mörk Liverpool: Martin Skrtel (5. mín.), Liam Bridcutt, sm, (44. og 71. mín.), Andy Carroll (57. mín.), Lewis Dunk (74. mín.) og Luis Suarez (85. mín.).

Brighton and Hove Albion: Brezovan, Calderon, Greer, Dunk, El-Abd (Vicente 69. mín.), Buckley (Noone 46. mín.), Bridcutt, Navarro, Lua Lua, Vokes (Mackail-Smith 69. mín.) og Barnes. Ónotaðir varamenn: Ankergren, Harley, Vincelot og Agdestein.

Mark Brighton: Kazenga Lua Lua (17. mín.).

Gult spjald: Alan Navarro.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.940.

Maður leiksins: Andy Carrol. Risinn átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en hann lét það ekkert á sig fá og sótti í sig veðrið eftir leikhlé. Hann skoraði fallegasta mark leiksins og lagði svo upp það síðasta. Andy barðist vel eins og í síðustu leikjum, honum er að fara fram og það er vel. Gott dagsverk!

Kenny Dalglish: Þetta var góður sigur en hann var ekki eins auðveldur og markatalan segir til um. Brighton lék mjög vel á móti okkur á Amex leikvanginum í Deildarbikarnum í svona hálftíma eða fjörutíu mínútur og þeir stóðu sig líka mjög vel hérna. Við verðskulduðum vissulega að vinna og komast áfram en það má deila um hvort markatalan hafi verið í samræmi við gang leiksins. 



                                                                          Fróðleikur.

- Liverpool vann sinn stærsta sigur á leiktíðinni. 

- Brighton tapaði fyrsta leik sínum á árinu. 

- Martin Skrtel skoraði í þriðja sinn á keppnistímabilinu. 

- Það hefur aldrei áður gerst í sögu Liverpool að mótherjar hafi skorað þrjú sjálfsmörk í sama leiknum.

- Reyndar hefur þetta ekki gerst áður í langri sögu þessarar merku bikarkeppni!

- Andy Carroll lék sinn 40. leik og skoraði í áttunda sinn. Þetta var sjötta mark hans á leiktíðinni.
 
- Luis Suarez skoraði tíunda mark sinn á sparktíðinni og er markahæstur í liðinu.

- Luis misnotaði víti í annað sinn á leiktíðinni.

- Stewart Downing lék sinn 30. leik með Liverpool. Hann hefur hingað til skorað eitt mark.
 
- Dirk Kuyt lék sinn 270. leik. Hann hefur skorað 69 sinnum.

- Þetta var fimmta sinn sem Liverpool og Brighton hafa verið dregin saman í F.A. bikarnum. Liverpool hefur komist þrívegis áfram en Brighton tvisvar.

- Liverpool hafði ekki áður unnið Brighton á heimavelli í F.A. bikarnum. 
 
Hér og hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Telegraph.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu ESPN





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan