| Sf. Gutt

Dirk skaut Liverpool áfram!

Dirk Kuyt skoraði síðbúið sigurmark á Anfield Road og Liverpool sló Manchester United úr leik í F.A. bikarnum. Liverpool sigraði 2:1 og því náðist að hefna fyrir útsláttinn á Old Trafford í fyrra. Bikarvegferð Liverpool heldur því áfram og er það vel!

Það var gríðarleg spenna í loftinu fyrir leikinn enda dró leikur liðanna á sama stað í haust dilk á eftir sér. Forráðamenn félaganna voru búnir að biðja sitt fólk innan vallar sem utan að sýna prúðmennsku þannig að fréttir af leiknum yrðu um knattspyrnuna.

Mennirnir sem voru í sviðsljósinu eftir leikinn í haust áttu ólíkt hlutskipti í dag. Luis Suarez sat uppi í stúku en Patrice Evra leiddi sitt lið til leiks. Hann átti heldur betur eftir að heyra það í leiknum frá stuðningsmönnum Liverpool allan leikinn.
 
Eins og við mátti búast þá gerði Kenny Dalglish nokkrar breytingar á liði sínu enda voru menn hans þreyttir eftir baráttuleikinn við Manchester City á miðvikudagskvöldið. Fjórir byrjunarliðsmenn frá því þá voru á varamannabekknum. Uppstilling hans kom mörgum á óvart og ýmsum þótti hún varnarsinnuð.
 
Liverpool gaf tóninn og Maxi Rodriguez átti fyrstu marktilraunina eftir fjórar mínútur en David De Gea varði skot hans í horn. Fjórum mínútum seinna kom fyrsta markskot gestanna en skot Ryan Giggs fór beint á Jose Reina. Í næstu sókn tók Jordan Henderson rispu og sendi fram á Steven Gerrard. Boltinn kom til hans í góðri stöðu en Steven náði ekki valdi á honum og ekkert varð úr. Eftir stundarfjórðung slapp Liverpool með skrekkinn. Antonio Valencia fékk þá boltann úti hægra megin. Hann lék upp að vítateignum og lét snöggt skot ríða af. Jose náði ekki til boltans sem lenti í stöng.      
 
Leikurinn var frekar daufur miðað við hvaða lið áttu í hlut og kannski voru leikmenn að halda aftur af sér svo ekki syði upp úr. Fjör færðist þó í leikinn á 21. mínutu. Liverpool fékk horn frá vinstri. Steven sendi fast fyrir markið og hitti á Daniel Agger sem stökk einn manna upp og skallaði í markið. David var illa staðsettur í markinu og átti ekki möguleika en Rauðliðum gat ekki verið meira sama. Reyndar fór boltinn af höfði Spánverjans og ekki var það verra. Vel gert hjá Dananum sem hefur verið mjög öflugur á keppnistímabilinu. Þetta var fyrsta mark hans og gat ekki komið á betri tíma.

Liverpool lét því miður ekki kné fylgja kviði eftir að hafa komist yfir og það var eins og leikmenn væru þreyttir. Kannski var það ekki skrýtið eftir atganginn fyrr í vikunni. Það fór því svo að gestirnir náðu góðum tökum á leiknum. Þeir ógnuðu samt ekkert þrátt fyrir að vera mikið með boltann. En sex mínútum fyrir leikhlé jöfnuðu þeir metin. Jose Enrique var illa vakandi í vörninni og lét Rafael Da Silva snúa á sig. Hann lék upp að endamörkum og sendi út í vítateiginn. Sendingin rataði beint á Ji Sung Park sem smellhitti boltann og Jose kom engum vörnum við. Þetta mark þýddi að liðin voru jöfn þegar hálfleiknum lauk.

Síðari hálfleikur byrjaði rólega. Eftir fimm mínútur sendi Ryan hættulega sendingu fyrir mark Liverpool. Daniel lenti í vandræðum með að hreinsa og gestirnir heimtuðu víti fyrir hendi en ekki var neitt dæmt. Sjö mínútum seinna vildu leikmenn Liverpool fá víti. Stewart Downing sendi inn í vítateiginn. Andy Carroll lenti í baráttu við Chris Smalling sem virtist handleika boltann og kannski oftar en einu sinni en ekkert var dæmt. Manchester United sótti rétt á eftir. Löng sending kom fram völlinn. Danny Welbeck náði að komast framhjá Jose við vítateigslínuna en Martin Skrtel bægði hættinni frá og hreinsaði áður en Danny vissi af. Magnað hjá Slóvakanum sem var eins og klettur í vörninni líkt og oft áður á þessu keppnistímabili. 

Kenny Dalglish þótti nú tími til kominn að breyta leikaðferð sinni enda höfðu menn hans ekki haft undirtökin frá því þeir komust yfir. Dirk Kuyt og Charlie Adam voru sendir til leiks. Maxi var heppinn rétt áður en hann skipti við Charlie þegar hann tæklaði harkalega með báðum fótum en dómarinn lyfti engu spjaldi sem hann hefði vel getað. Þessar skiptingar höfðu góð áhrif á leik Liverpool. 
      
Á 67. mínútu tók Steven aukaspyrnu vel utan vítateigs en David varði skot hans af öruggi. Rétt á eftir átti Michael Carrick skot utan vítateigs rétt framhjá hinu megin. Steven fór svo af velli á 72. mínútu en hann virkaði þreyttur. Craig Bellamy kom til leiks í hans stað. Liverpool var nú komið með betri tök á leiknum en eftir því sem leið að leikslokum fannst flestum sem það stefndi í jafntefli og leikurinn var sem fyrr með rólegra móti. Það vantaði þó ekkert upp á spennuna sem jókst eftir því sem styttra varð í leiknum. Þegar fimm mínútur voru eftir varð Jose að vera vel á verði þegar löng sending kom fram. Hann var fljótur til og skallaði frá við vítateiginn áður en illa fór.

Þegar tvær mínútur voru eftir réðust úrslitin. Jose tók langa markspyrnu. Á miðjum vallarhelmingi United stökk Andy hæst og framlengdi sendinguna inn í vítateiginn. Dirk Kuyt slapp frá Patrice og þrumaði boltanum viðstöðulaust í markið fyrir framan Kop stúkuna. Allt gekk gersamlega af göflunum á meðan leikmenn Liverpool fögnuðu fyrir framan Kop! Liverpool hafði ekki leikið vel en allt í einu var sigurinn svo til í hendi. Dirk á mikið hrós skilið en hann hefur aldrei gefið upp þrátt fyrir að hafa verið langt frá sínu besta á þessu keppnistímabili. 

Strax í næstu sókn hefði Liverpool átt að skora aftur. Stewart sendi góða sendingu fyrir frá vinstri. Andy náði skalla en boltinn lenti í vinklinum og fór út í miðjan teig. Þar kom Dirk en hann hitti boltann ekki vel og skot hans fór framhjá. Liverpool hélt fengnum hlut það sem eftir leið og gríðarlegur fögnuður braust út þegar ljóst var að Liverpool hefði slegið Manchester United út úr F.A. bikarnum. Sem fyrr fagnaði Kenny Dalglish innilega enda tilefni til. Leikmenn Liverpool voru ekki upp á sitt besta en seigla skilaði þessum sæta sigri.
 
Vika getur verið langur tími í knattspyrnunni. Fyrir viku lék Liverpool sinn slakasta leik á leiktíðinni og tapaði illa í Bolton. Kenny Dalglish lét menn sína heyra það og undiralda gerði vart við sig. Nú viku seinna hafa bæði liðin frá Manchester fallið úr leik í ensku bikarkeppnunum fyrir Kóngsmönnum í Musterinu. Stuðningsmenn Liverpool brosa út að eyrum og ganga glaðir móti hækkandi sól.

Liverpool: Reina, Skrtel, Carragher (Kuyt 63. mín.), Agger, Kelly, Henderson, Gerrard (Bellamy 72. mín.), Enrique, Downing, Carroll og Rodriguez (Adam 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Doni, Johnson, Coates og Shelvey.
 
Mörk Liverpool: Daniel Agger (21. mín.) og Dirk Kuyt (88. mín.).

Manchester United: De Gea, R. Da Silva, Smalling, Evans, Evra, Scholes (Hernandez 76. mín.), Carrick, Giggs (Berbatov 90. mín.), Valencia, Welbeck og Park. Ónotaðir varamenn: Lindegaard, Ferdinand og F. Da Silva, M. Keane og Pogba.
 
Mark Manchester United: Ji Sung Park (39. mín.).

Gult spjald: Rafael Da Silva.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 43.952.
 
Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn skoraði sigurmarkið og að skora sigurmark gegn Manchester United fyrir Liverpool dugar oftast til að fá einhverja viðurkenningu. Dirk lék auðvitað ekki allan leikinn en hann kom mjög sterkur til leiks sem varamaður. Honum hefur gengið illa á þessari leiktíð en hann heldur alltaf sínu striki og reynir sitt besta. Í dag dugði það til að skora frábært sigurmark!

Kenny Dalglish: Þetta var magnað hjá leikmönnum okkar ef mið er tekið af því sem þeir fóru í gegnum á miðvikudagskvöldið. Það var kannski fullmikið að ætlast til af þeim að þeir myndu spila strax að morgni laugardags en staðfesta, hugarfar og þrá þeirra til að ná sigri var frábær. Ég get ekki hrósað þeim nógu mikið fyrir framgöngu sína og fyrir að ná þessum úrslitum í dag.

                                                                    Fróðleikur

- Þetta var í þrettánda sinn sem Liverpool og Manchester United dragst saman í F.A. bikarnum.

- Liverpool hefur nú fjórum sinnum komist áfram en Manchester United níu sinnum.

- Liverpool og Manchester United mættust í F.A. bikarnum á síðustu leiktíð. Manchester United vann þá 1:0 á Old Trafford með vítaspyrnu Ryan Giggs.

- Liðin mættust síðast á Anfield Road í þessari keppni 2006. Liverpool vann þann leik 1:0 og skoraði Peter Crouch markið. Liverpool fór í framhaldinu alla leið í keppninni og vann hana! 

- Daniel Agger skoraði sitt fyrsta mark á keppnistímabilinu. 

- Dirk Kuyt skoraði í annað sinn. 

- Jose Reina heldur áfram að spila hvern einasta leik.

- Steven Gerrard lék sinn 570. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 145 mörk í þeim. 

- Jamie Carragher hélt upp á 34. ára afmæli sitt á mjög svo gleðilegan hátt.

Hér eru
 myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Echo.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Guardian. 

Hér er viðtal við Kenny Dalglish sem tekið var eftir leik.





 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan