| Heimir Eyvindarson

Enn eitt jafnteflið á Anfield

Liverpool og Stoke skildu jöfn 0-0 í tilþrifalitlum leik á Anfield í dag. Enn eina ferðina töpuðust dýrmæt stig á heimavelli.

Kenny Dalglish kom nokkuð á óvart með liðsuppstillingu sinni í dag. Daniel Agger gat ekki verið með, vegna lítilsháttar meiðsla, og í hans stað dugði ekkert annað en að setja tvo karla: Jamie Carragher, sem var í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn síðan í október og Sebastian Coates. 
Sannarlega nokkuð undarlegt að stilla upp fimm miðjumönnum gegn jafn varnarsinnuðu félagi og Stoke City.

Craig Bellamy hóf leikinn á bekknum eins og svo oft áður og Maxi Rodriguez var ekki í hópnum. Andy Carroll hóf sömuleiðis leik á bekknum og því var Dirk Kuyt einn frammi.

Bæði lið voru frekar varnarsinnuð og mikið um feilsendingar á báða bóga á fyrstu mínútunum. Fyrsta færi leiksins kom í hlut Liverpool á 11. mínútu. Þá átti Charlie Adam að gera betur þegar Martin Skrtel flikkaði boltanum á Skotann, eftir hornspyrnu Gerrard. Adam var í góðu færi á fjærstöng en marktilraun hans misheppnaðist hrapallega þar sem hann var fyrir opnu marki.

Á 24. mínútu kom eina marktilraun Stoke í leiknum sem eitthvað kvað að. Matthew Etherington tók þá rispu fram völlinn og endaði á því að skjóta utan vítateigs en skotið fór beint á Jose Reina sem varði auðveldlega. Á 28. mínútu voru þeir félagar Skrtel og Adam aftur á ferðinni upp við mark gestanna. Í þetta sinn var Adam nær því að skora, en ekki nægilega. Litlu síðar tók Stewart Downing kröftugan sprett frá miðju. Þegar upp að vítateig kom skaut hann en boltinn fór yfir. Fyrri hálfleikur leið án teljandi tíðinda og leikmenn héldu til búningsherbergja á Anfield án þess að mark hefði verið skorað.

Seinni hálfleikur byrjaði á svipaðan hátt og sá fyrri. Lítið að gerast og mikið um slæma sendingarfeila. Stoke lá í vörn og okkar menn frekar hugmyndasnauðir í tilraunum sínum til að brjóta múrinn. Á 59. mínútu leit fyrsta skipting Liverpool dagsins ljós, þegar Andy Carroll kom inn á fyrir Stewart Downing. Þremur mínútum síðar kom Carroll verulega við sögu, þegar hann varð fyrir ágætu skoti Henderson í vítateig Stoke. Skömmu síðar varð hann aftur fyrir skoti, nú frá Glen Johnson, inni í teig þannig að hann varði fleiri skot í dag en hann kom á markið!

Á 74. mínútu kom Craig Bellamy loks inn á. Jordan Henderson fór af velli. Á 78. mínútu hafði fyrirgjöf Jose Enrique viðkomu í Jonathan Woodgate og barst fyrir mark Stoke. Þar var Dirk Kuyt í ágætu færi og kastaði sér fram til að skalla knöttinn í netið. Ágætur skalli Hollendingsins fór því miður naumlega fram hjá. Besta færi Liverpool í seinni hálfleik. Rétt á eftir reyndi Charlie skot frá miðju þegar hann sá að markmaður Stoke var kominn svolítið framarlega en hætta skapaðist ekki því sá danski í markinu bjargaði.

Þegar átta mínútur voru eftir gaf varamaðurinn Craig Bellamy fyrir frá vinstri. Dirk náði til boltans við fjærstöngina en skalli hans, úr þröngu færi, fór í hliðarnetið. Þarna hefði Dirk frekar átt að skalla út í vítateiginn. Fjórum mínútum seinna sendi Craig aftur fyrir. Martin Skrtel stökk manna hæst en skalli hans fór í jörðina og naumlega yfir. Þetta var síðasta færi leiksins sem eitthvað kvað að.

Niðurstaðan á Anfield 0-0 jafntefli, í einum slappasta leik Liverpool á tímabilinu. Liðið var vissulega betri aðilinn í leiknum, en í dag voru það ekki bara mörkin sem létu á sér standa heldur færin líka. Að vísu hefði Howard Webb með góðum vilja getað dæmt víti á Stoke í tvígang í seinni hálfleik, en sá vilji var ekki fyrir hendi. Í fyrra skiptið var Andy rifinn niður rétt eftir að hann kom inn á.

Liverpool: Reina, Johnson, Skrtel, Carragher, Coates, Enrique, Downing (Carroll 59. mín.), Adam, Henderson (Bellamy 74. mín.), Gerrard og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Doni, Shelvey, Kelly, Aurelio og Flanagan.

Stoke City: Sörensen, Shawcross, Palacios (Whitehead 63. mín.), Wilson, Huth, Woodgate (Wilkinson 79. mín.), Etherington (Fuller 87, mín.), Whelan, Delap, Crouch og Walters. Ónotaðir varamenn: Begovic, Jones, Pennant og Jerome. 
 
Gul spjöld:
 Jon Walters, Thomas Sörensen og Ryan Shawcross.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.691.

Maður leiksins: Glen Johnson. Það er ekki létt verk að velja mann leiksins í dag, en Glen Johnson fær heiðurinn fyrir að vera einna líflegastur okkar manna fram á við.

Kenny Dalglish: Stoke kom hingað til að ná í eitt stig og þeim tókst ætlunarverk sitt. Okkar verk var að brjóta niður varnir þeirra og það tókst okkur ekki. Þau fáu færi sem við fengum í dag tókst okkur ekki að nýta. Það verðum við að gera í svona leikjum.


                                                                        Fróðleikur:
 
- Þetta var 34. jafntefli liðanna, en þau hafa mæst 125 sinnum. Liverpool hefur unnið 63 leiki, 34 hafa endað með jafntefli og Stoke hefur unnið 28 leiki.

- Einungis þrír af þessum 28 sigurleikjum Stoke hafa farið fram á Anfield. Sá síðasti fór fram í mars 1959. Þá léku bæði liðin í 2. deild.

- Það þarf kannski ekki að koma á óvart að engin mörk skyldu líta dagsins ljós á Anfield í dag. Af 10 efstu liðum Úrvalsdeildarinnar er Everton eina liðið sem hefur skorað færri mörk en Liverpool og Stoke. Everton hefur skorað 21 mark, Stoke 22 og Liverpool 24.

- Liverpool hefur enn ekki tapað á Anfield það sem af er leiktíðar.

Hér er viðtal við Kenny Dalglish sem tekið var eftir leik.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan