| Sf. Gutt

Markaregn í Malasíu!

Það var sannkallað markaregn í Kúala Lumpur í Malasíu þegar Liverpool mætti úrvalsliði þarlendra. Mest var þó skorað í síðari hálfleik en Liverpool vann 6:3 eftir að staðan hafði verið 1:1 í hálfleik!

Liverpool komst yfir á 27. mínútu þegar Charlie Adam skoraði úr tvítekinni vítaspyrnu sem dæmd var eftir brot á Andy Carroll. Heimamenn jöfnuðu þegar tvær mínútur voru til hálfleiks þegar Shafiq Rahim skoraði beint úr aukaspyrnu. Steve Clarke, sem stjórnaði Liverpool í fjarveru Kenny Dalglish skipti öllu liðinu út eins og Kenny gerði í Kína um daginn.

Það varð bið á því að Liverpool næði að komst yfir og það var ekki fyrr en á 68. mínútu að David Ngog renndi boltanum í markið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Emiliano Insua. Lán var með í för því fyrirgjöf hans fór í tvo varnarmenn á leiðinni. Nú hófst markaregnið! Nokkrum andartökum seinna sendi Alberto Aquilani fram á David sem skoraði með föstu skoti úr vítateignum. Á 75. mínútu skoraði Maxi Rodriguez af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá Emiliano. 

Allt leit út fyrir öruggan sigur en Mohammad Safi skoraði tvívegis á tveimur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Þá var staðan allt í einu orðin 3:4 og níu mínútur eftir! Heimamenn gerðu harðar atlögur í kjölfarið en Liverpool missti þó ekki leikinn úr höndum sér og í viðbótartíma komu tvö mörk. Fyrst skoraði Maxi sitt annað mark eftir fyrirgjöf frá Dirk Kuyt. Hann stýrði boltanum í markið með skalla af stuttu færi. Í næstu sókn skoraði svo Dirk með föstu skoti eftir að hafa komist inn í vítateiginn hægra megin. Nóg var um mörkin hjá Liverpool og vonandi heldur liðið áfram að raða inn mörkum þegar á hólminn verður komið. 

Asíuferðalagið heldur nú áfram og leikmenn Liverpool koma stuttlega við í Singapúr þar sem haldin verður opin æfing. Eftir það verður haldið heim til Englands. Næsti æfingaleikur verður í Hull næsta laugardag. 

Liverpool - Fyrri hálfleikur: Jones, Flanagan, Carragher, Agger, Robinson, Coady, Spearing, Adam, Meireles, Cole og Carroll.
 
Liverpool - Síðari hálfleikur: Gulacsi (Hansen 69. mín.), Kelly, Kyrgiakos, Wilson, Insua, Aquilani, Shelvey, Poulsen, Maxi, Kuyt og Ngog.
 
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan