| Heimir Eyvindarson

Neitaði Mascherano að spila gegn City?

Roy Hodgson sagði á blaðamannafundi eftir tapleikinn gegn Manchester City í kvöld að ekki hefði komið til greina að láta Javier Mascherano spila leikinn.

Þær fregnir bárust fyrir leikinn gegn City að Argentínumaðurinn væri hundfúll yfir því að Liverpool hefði hafnað tilboði Barcelona og hefði þess vegna neitað að spila í kvöld. Roy Hodgson segir hinsvegar að það hefði aldrei komið til greina að tefla Mascherano fram í leiknum þar sem hugur hans hefði verið alls staðar annars staðar en í herbúðum Liverpool.

,,Javier er einfaldlega ekki með hugann á réttum stað sem stendur. Hann hefur gert okkur það ljóst að hann vilji fara frá Englandi og hann brást illa við þegar við höfnuðum tilboði Barcelona."

,,Þetta er ekkert sem gerðist í dag, það hafa verið viðræður í gangi milli liðanna síðustu þrjá daga."

,,Enn sem komið er ber mjög mikið í milli. Það verð sem þeir eru tilbúnir að greiða er fjarri því sem við getum sætt okkur við. Viðræðurnar eru enn í gangi og þess vegna vil ég ekki segja of mikið, en meðan ekki kemur betra boð verður Javier að sætta sig við að vera hér. Það er alveg skýrt af okkar hálfu."

,,Ég hef engan áhuga að gera blaðamál úr þessu. Mascherano er góður leikmaður og hann er samningsbundinn Liverpool. Við höfum enga ástæðu til þess að selja hann á undirverði. Hann er ósáttur eins og er því hann og kona hans vilja ólm komast frá Englandi. Hann var þess vegna ekki í nokkru standi til að spila leikinn í dag. Það hefði verið kolrangt af mér að tefla honum fram. Hugur hans var jafn órafjarri verkefninu og hugsast gat."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan