| Grétar Magnússon

Aquilani vonast til að spila gegn Arsenal

Alberto Aquilani spilaði loks sinn fyrsta leik í byrjunarliði Liverpool á tímabilinu gegn Fiorentina á miðvikudagskvöldið.  Hann vonast nú til að fá áfram tækifæri í stórleiknum gegn Arsenal á sunnudaginn.

Ítalinn viðurkennir að hann sé ekki enn kominn í gott leikform eftir að hafa verið frá í átta mánuði vegna ökklameiðsla en hann vonast til að frammistaða sín gegn Fiorentina hafi gert það að verkum að hann komi til greina í byrjunarliðið gegn Arsenal.

,,Ég var í byrjunarliði í fyrsta sinn í sjö eða átta mánuði - það er mjög erfitt," sagði hann í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins eftir leikinn.

,,Það er erfitt að vera í formi eftir svo langan tíma en ég er ánægður með að hafa spilað því það segir mér að ég sé á réttri leið.  Ökklinn er betri og þó svo að úrslitin hafi ekki verið góð í kvöld þá er ég persónulega mjög ánægður með að hafa tekið þetta skref líkamlega."

,,Ég get spilað betur en það var mikilvægt að byrja og komast á skrið.  Ég þarf að spila og spila vegna þess að ég er nýr í liðinu.  Fyrri hálfleikurinn var í lagi en eftir það þá varð ég svolítið þreyttur, en það er eðlilegt.  Núna þarf ég að leggja hart að mér á æfingum til að koma skrokknum í lag."

,,Ég vonast til að geta spilað gegn Arsenal."

Aquilani segist vera hæstánægður með lífið í Liverpool þrátt fyrir að hafa að mestu eytt tíma sínum á sjúkraþjálfarabekknum.  Hann segist líka vera viss um það að liðsfélagar sínir, sem flestir eru í heimsklassa, muni auðvelda sér að venjast enska boltanum.

,,Það er allt mjög gott hér," segir hann.  ,,Það eru góðir leikmenn hér og þeir geta hjálpað mér.  Þessi leikur var mikilvægur uppá sjálfstraustið og það að venjast því að spila með Steven Gerrard, Javier Mascherano og öðrum leikmönnum."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan