| Heimir Eyvindarson

Alonso tekur ákvörðun eftir þrjár vikur

Óvissan í kringum Xabi Alonso heldur áfram, samkvæmt fréttum í enskum fjölmiðlum. Umboðsmaður hans hefur sagt að Alonso vilji fara frá Liverpool, jafnvel þó Alonso hafi sjálfur haldið öðru fram, og fréttir frá Madrid hafa einnig verið misvísandi, því Real Madrid hefur ýmist gefið það út að þeir séu hættir að spá í Alonso, eða að þeir séu tilbúnir að greiða svo til hvaða verð sem er fyrir kappann!

Í dag hafa enskir miðlar það eftir umboðsmanni Xabi að hann ætli að vera búinn að gera upp hug sinn fyrir 19. júlí, þegar Liverpool liðið leggur upp í æfingaferð sína til Asíu. Stuðningsmenn Liverpool, sem margir hverjir eru orðnir býsna leiðir á endalausum vangaveltum framtíð Alonso, virðast sem sagt þurfa að bíða enn um sinn eftir því að þessi mál komist á hreint.

Sagt er að Real Madrid hafi nú þegar boðið 20 milljónir punda í Alonso en Liverpool er talið vilja fá milli 25 og 30 milljónir punda fyrir hann. Í dag var sagt frá því í ítölskum fjölmiðlum að Juventus hefði ekki gefið upp alla von um að ná í Alonso. Tuttosport segir frá því að stjórn félagsins hafi gefið framkvæmdastjóranum grænt ljós á að reyna að næla í Spánverjann snjalla.

Eins og allir vita þá reyndi Juventus mikið að klófesta Alonso síðasta sumar, en valdi á endanum ódýrari kost í Dananum Christian Poulsen. Dananum hefur hinsvegar gengið illa að fóta sig í Tórínó og talið er að Juventus vilja losa sig við hann og freista þess á nýjan leik að krækja í Alonso. Til þess að það megi takast er þó nokkuð víst að Juventus þarf að selja fleiri leikmenn en Poulsen, því verðmiðinn á Alonso er heldur hærri en fyrir ári síðan.






  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan