| Grétar Magnússon

Deildarbikarinn er mikilvægur

Brasilíski miðjumaðurinn Lucas Leiva segir að Deildarbikarinn sé mikilvæg keppni fyrir Liverpool og setur hann stefnuna á að félagið vinni titilinn í áttunda skiptið.  Lucas segir að hann sé óðum að ná sínu besta formi eftir að hafa tekið þátt í Ólympíuleikunum í sumar.

,,Fyrir mér er Deildarbikarinn mikilvæg keppni vegna þess að það er verið að spila um bikar og þetta gefur okkur tækifæri á því að byggja upp sjálfstraust," sagði Lucas.

,,Þegar maður spilar fyrir Liverpool þá vill maður vinna alla titla.  Þess vegna er það svo sérstakt að vera hjá stóru félagi með svona magnaða sögu.  Í kvöld byrjar Deildarbikarinn og við setum stefnuna á bikar þar.  Það þýðir lítið að horfa á næstu leiki, við verðum að einbeita okkur á þann sem kemur næst og í þessu tilfelli er það Crewe."

,,Við eigum eftir að spila marga leiki því við erum í fjórum keppnum en maður reynir að hugsa þannig að þær séu allar jafn mikilvægar.  Úrvalsdeildin er að sjálfsögðu mikilvægust en við verðum að reyna að standa okkur vel í öllum keppnum.  Ég hef aðeins átt erfitt uppdráttar undanfarið en nú verð ég hér í heilan mánuð áður en ég spila aftur með Brasilíu.  Þetta er gott fyrir mig vegna þess að það þýðir að ég er ekki endalaust á ferðalögum og get þá eytt meiri tíma hér til þess að jafna mig."

,,Ég er með gott sjálfstraust því að stjórinn valdi mig til að spila gegn Marseille í Meistaradeildinni og ég spilaði líka gegn Aston Villa í deildinni þannig að ég mun vonandi spila fleiri leiki.  Ég vil spila í hverjum einasta leik hvort sem það er Deildarbikarinn, FA bikarinn, Úrvalsdeildin eða Meistaradeildin."

Lucas segir að leikmenn liðsins muni ekki vanmeta Crewe eftir bitra reynslu þegar liðið datt út úr FA bikarnum gegn Barnsley á síðasta tímabili.  Einnig lenti liðið í vandræðum með utandeildarliðið Havant and Waterlooville fyrr í FA bikarnum.

,,Ég þekki Crewe aðeins þó svo að ég þekki ekki leikmenn þeirra.  Þeir hafa orðspor á sér fyrir að spila góðan fótbolta og ég er viss um að þeir muni veita okkur harða keppni því þá hlakkar eflaust til að koma á Anfield til að sýna hvað þeir geta.  Það frábæra við bikarkeppni í þessu landi er það að allir geta unnið alla."

,,Við komumst að því á síðasta tímabili í FA bikarnum þegar við vorum slegnir út af Barnsley á Anfield og fyrir það áttum við erfiða leiki gegn Havant and Waterlooville og Luton.  Við vitum að öll lið hafa eitthvað til brunns að bera og við verðum að vera tilbúnir að berjast í hvert skipti."

Lucas er ánægður með samkeppnina um stöður á miðjunni og segir hann að heilbrigð samkeppni um stöður sé mikilvæg hjá stóru félagi eins og Liverpool.

,,Ef þú lítur á miðjuna þá er mikil samkeppni um stöður vegna þess að við erum með Steven Gerrard, Xabi Alonso, Javier Mascherano, Damien Plessis og sjálfan mig þannig að það verður ávallt erfitt að komast í liðið.  En þetta hlýtur að vera aðeins gott fyrir félagið vegna þess að það þýðir að Rafa hefur úr miklu að velja og hann getur valið þá leikmenn sem honum finnast passa við tiltekna leiki."

,,Frá sjónarhorni leikmannsins þá er þetta ekki auðvelt vegna þess að maður vill spila alla leiki en ef maður er hjá alvöru félagi eins og Liverpool þá veit maður að maður þarf að berjast fyrir sæti í byrjunarliðinu og það sama gildir um mig eins og alla aðra.  Maður verður bara að leggja hart að sér á æfingum á Melwood og á vellinum í leikjum og ef maður gerir það þá á maður meiri möguleika á því að vera í liðinu."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan