| Grétar Magnússon

Gerrard ánægður með viðbrögðin

Steven Gerrard var nokkuð harðorður og sagði það sem segja þurfti í blaðaviðtali í síðustu viku.  Hann var ánægður með viðbrögð samherja sinna eftir góðan sigur á Bolton.

Reebook völlurinn hefur reynst Rafa Benítez óheilladrjúgur undanfarin ár en nú náðist loksins góður sigur.  Gerrard sagði í viðtali eftir leikinn:  ,,Sem fyrirliði liðsins, þá er stundum þörf á því að maður komi fram og segi eitthvað.  Við erum vonsviknir yfir því hvar við erum staddir í deildinni.  Það er mikilvægt að við snúum bökum saman og berjumst allt til enda."

,,Það sem ég sagði var ekki neikvætt, ég var að reyna að vera jákvæður og fá fram viðbrögð vegna þess að við erum vanir því að spila vel og vinna stóra sigra hjá þessu félagi.  Þetta var mjög góður sigur vegna þess að liðin í kringum okkur hafa verið að standa sig vel.  Við höfum ekki verið að sýna stöðugleika og það er því mikilvægt að ná öllum stigunum.  Nú getum við nálgast leikinn á miðvikudaginn með miklu sjálfstrausti."

Leikurinn á miðvikudaginn er leikur sem fara átti fram í ágúst en eins og svo oft áður finnst ekki tími til að leika þennan leik fyrr en langt er liðið á tímabilið.  Ryan Babel, sem var maður leiksins gegn Bolton, vonast til þess að fá að vera áfram í byrjunarliðinu en hann hefur byrjað inná í síðustu fimm leikjum liðsins.

Babel var mjög ánægður með mark sitt gegn Bolton, sem var hans áttunda á tímabilinu, hann segir að frammistaða liðsins hafi verið góðri viku á æfingavellinum að þakka.

Hann sagði:  ,,Við áttum frábæra viku á æfingum og byggðum upp mikið sjálfstraust.  Í dag (í gær) spiluðum við vel og sýndum þetta sjálfstraust út á vellinum.  Við verðum að halda pressunni á Everton, og ég er viss um að þeir muni tapa stigum áður en tímabilið er á enda.  Ef við höldum áfram að vinna þá er ég viss um að við náum fjórða sætinu.  Ég var ánægður með markið, auðvitað, og það gefur mér aukið sjálfstraust líka.  Vonandi get ég haldið áfram að gera vel eftir þessa frammistöðu."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan