| Grétar Magnússon

Crouch vonast til þess að byrja

Peter Crouch vonast til þess að vera í byrjunarliði gegn Cardiff þegar liðin mætast á Anfield í Deildarbikarnum.  Crouch stóð sig vel eftir að hann kom inná gegn Arsenal síðastliðinn sunnudag.

Crouch kom inná fyrir Fernando Torres í hálfleik og átti m.a. gott skot að marki fyrir utan teig en Manuel Almunia varði ágætlega.  Crouch hefur ekki spilað eins mikið á þessu tímabili eins og hann hefði óskað en hann krossleggur fingurna og vonast til þess að hljóta náð fyrir augum Rafa Benítez þegar hann velur byrjunarliðið á morgun.

,,Ég hlakka til leiksins við Cardiff og vonast til þess að spila í 90 mínútur," sagði leikmaðurinn leggjalangi.

,,Ég var ánægður með að koma inná gegn Arsenal, jafnvel þó að það hafi ekki verið undir þeim kringumstæðum sem ég vildi þar sem Fernando meiddist.  Maður vill alltaf að bestu leikmennirnir séu inná vellinum og vonandi verður hann ekki lengi frá."

,,Frá mínum bæjardyrum séð hef ég ekki fengið of mörg tækifæri á þessu tímabili og ég verð að nýta þau sem gefast.  Þetta verður langt tímabil, við erum með stóran hóp leikmanna og allir munu fá að spila á einhverjum tímapunkti.  Ég veit það eitt að þegar ég spila þá verð ég að standa mig."

,,Leikmenn eru gráðugir og vilja spila í hverri viku en það er ekki mögulegt.  Við vitum að það verða allt að 70 leikir á þessu tímabili og við skiljum hvað stjórinn er að reyna að gera."

Hann bætti við:  ,,Cardiff leikurinn er augljóslega leikur þar sem búist er við sigri frá okkur en við getum ekki gengið að neinu vísu.  Það verður gaman að sjá Robbie Fowler aftur vegna þess að hann var frábær leikmaður fyrir þetta félag.  Það var frábært þegar hann kom aftur og vann gríðarlega vel fyrir liðið.  Hann er einnig góður persónuleiki sem gott er að hafa í búningsherberginu og ég er viss um að leikmennirnir hlakka til að hitta hann aftur."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan