| Sf. Gutt

Til hamingju!

Steven Gerrard á sannarlega skildar hamingjuóskir! Hann lék, gegn Arsenal í gær, sinn fjögur hundraðasta leik fyrir hönd Liverpool.

Það var snemma ljóst að Steven Gerrard væri mjög efnilegur knattspyrnumaður. Það voru þó líklega ekki margir sem höfðu trú á því að strákurinn, sem kom inn sem varamaður fyrir Vegard Heggem undir lok leiks Liverpool og Blackburn Rovers þann 29. nóvember 1998, myndi eiga eftir að leika 400 leiki með Liverpool. Þeim áfanga náði hann samt í gær gegn Arsenal.

Á þeim tæpa áratug sem liðinn er hefur Steven Gerrard skipað sér í röð bestu knattspyrnumanna sinnar kynslóðar. Hann er búinn að vera einn besti leikmaður Liverpool síðustu árin og hann á alla möguleika á því að verða, þegar árin líða, að verða talinn meðal goðsagna Liverpool Football Club. Ýmir hafa reyndar þá skoðun að hann sé ef til vill svolítið ofmetinn en því verður ekki á móti mælt að Steven Gerrard er frábær leikmaður.

Það má kannski segja að fjögur hundraðasti leikur Steven Gerrard með Liverpool hafi verið dæmigerður fyrir feril hans hjá Liverpool. Hann skoraði fallegt mark og var á þönum um völlinn þveran og endilangan allan leikinn. Hann dró sína menn áfram og sýndi gott fordæmi.

Steven hefur nú leikið fjögur hundruð leiki með Liverpool og í þeim leikjum hefur hann skorað 78 mörk. Það á án nokkurs vafa eftir að bætast við þessar tölur næstu árin. Steven hefur margt oft sagt að hann vilji vera sem allra lengst hjá Liverpool og vonandi verður raunin sú.

 

 

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan