| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Hugleiðing þýðanda: Eftir skipbrot í Istanbúl er næsta mál á dagskrá að taka á móti toppliði Arsenal á Anfield Road á sunnudaginn. Skyldi vera gott að spila við Arsenal núna eða ekki? Því er ekki gott til að svara. Arsenal hefur verið algerlega óstöðvandi í síðustu leikjum. Það mætti líta á þá staðreynd sem svo að liðið muni ekki vinna endalaust. Þessi lið hafa hvorugt lotið í gras í deildarleik á þessari leiktíð og eru ein, það sem af er leiktíðar, um þann framúrskarandi árangur í efstu deild á Englandi. Einhver segði að eitthvað myndi þurfa undan að láta í þessum fyrsta leik vetrarins hjá liðunum. Vissulega gæti farið svo að ekkert léti undan og liðin myndu skilja jöfn.

Sem fyrr segir þá hefur Liverpool enn ekki tapað deildarleik á þessari leiktíð. Það er vissulega frábær árangur en það segir sína sögu um kröfurnar sem við stuðningsmenn Liverpool gerum til liðsins okkar að hópur stuðningsmanna liðsins er ekki alls kostar sáttur. Frá því Liverpool náði forystu í deildinni eftir stórsigurinn gegn Derby hefur liðið ekki leikið vel. Liðið vann magnaðan sigur á grönnum sínum um síðustu helgi og þá héldu flestir að liðið færi aftur á rétta braut. Tapið í Istanbúl kom flestum í opna skjöldu. Leikurinn gegn Arsenal verður mikil prófraun fyrir bæði liðin. Við vonum að Rauði herinn nái að halda Skyttunum í skefjum á sunnudaginn. Til þess þarf liðið að leika eins og það gerði best fyrst á þessari leiktíð. Það er tími til kominn fyrir leikmenn Liverpool að rifja upp hvernig þeir spiluðu þá!

Liverpool gegn Arsenal á síðustu sparktíð: Liverpool skaut skytturnar í kaf þegar liðin mættust á Anfield Road á síðustu leiktíð. Risinn skoraði þrennu og Daninn eitt þegar Liverpool vann 4:1. Þetta var einn besti leikur Liverpool á leiktíðinni og liðið hefndi grimmilega fyrir tvö heimatöp fyrir Skyttunum í bikarkeppnunum.

Spá Mark Lawrenson

Liverpool v Arsenal

Allir vita hversu vel Arsenal hefur verið að spila upp á síðkastið. En núna reynir fyrst almennilega á liðið því af næstu sjö deildarleikjum eru bara tveir á heimavelli. Það er erfitt fyrir öll lið að sækja Anfield heim. Liverpool á þar stuðning áhorfenda vísan og ætti því að geta sýnt sitt besta. Liðið lék slaklega þegar það tapaði fyrir Besiktas í Meistaradeildini fyrr í vikunni. Liverpool vill því fyrir alla muni ná einhverju út úr þessum leik og ég held að hann endi með jafntefli.

Úrskurður: Liverpool v Arsenal. 1:1.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan