| Sf. Gutt

Rafael Benítez er sáttur við dráttinn

Liverpool drógst gegn franska liðinu Toulouse í forkeppni Meistaradeildarinnar á föstudaginn. Rafael Benítez, framkvæmdastjóri Liverpool, segist sáttur við dráttinn og nefnir tvær meginástæður fyrir því.

"Það eru tvær ástæður fyrir því að ég er ánægður með dráttinn. Í fyrsta lagi þá er ferðalagið þægilegt og í annan stað þá verður seinni leikurinn á Anfield fyrir framan stuðningsmenn okkar.

Eftir að hafa lagt leið okkar til Hong Kong, Sviss og Rotterdam þá var langt ferðalag það síðasta sem við óskuðum okkur."

Rafael Benítez segist sáttur við dráttinn en hann veit að Toulouse verður verðugur andstæðingur. Liðið hafnaði í þriðja sæti í frönsku deildinni á síðustu leiktíð og því er öruggt að það er eitthvað spunnið í þetta lið.

"Toulouse er gott lið og hefur nokkra góða leikmenn í sínum röðum. Franska deildin er mjög sterk og þetta verður því ekki auðveld viðureign. Þegar við komum heim frá Rotterdam þá munum við byrja að kortleggja Toulouse. Við eigum nú þegar einhverjar upplýsingar um liðið en við verðum að bretta upp ermarnar í upplýsingaöflun þegar við komum heim."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan