| Grétar Magnússon

Rauðliðarnir geta sigrað

Stuðningsmenn Liverpool eru á öllum aldri og munu allflestir horfa á leikinn í kvöld.  Einn stuðningsmaður, 106 ára að aldri, ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og mun horfa á leikinn.

Nell Rimmer sem er gallharður stuðningsmaður Liverpool hefur tryggt sér besta sætið á Hallwood Sheltered hjúkrunarheimilinu í Liverpool.  Hún hefur náð því að horfa á alla úrslitaleiki Liverpool í Evrópukeppninni og hefur trú á því að sigur náist gegn Milan í kvöld.

Í viðtali við staðarblaðið Liverpool Echo sagði Nell:  ,,Ég elska íþróttir, sérstaklega fótbolta og ég hef verið stuðningsmaður Liverpool alla mína ævi.  Ég held að þeir muni sigra."

Þegar Nell varð 106 ára fékk hún í afmælisgjöf áritaða mynd af leikmönnum Liverpool og stefnir hún á að fara í VIP skoðunarferð um Anfield 31. maí en þann dag verður hún 107 ára.

Barbara Langton, sem er starfsmaður á hjúkrunarheimilinu sagði:  ,,Nell er með brjálaðan áhuga á íþróttum.  Hún hefur verið að fylgjast með snóker undanfarið og svo hefur hún auðvitað hvatt Liverpool áfram í útsláttarkeppninni í Meistaradeildinni.  Hún segir að leyndarmálið að langlífi sé engar reykingar og ekkert áfengi."

Skemmtileg dæmi eru einnig um það að börn séu harðir stuðningsmenn og sagðist Peter Finnigan, sem er stuðningsmaður Liverpool, hafa hitt yngsta stuðningsmann allra tíma árið 1984 þegar Liverpool léku til úrslita í Rómarborg.  Hann og félagar hans hittu þar litla tveggja ára stelpu fyrir utan leikvanginn þar sem hún krafðist þess að ná ljósmyndum af leiknum.

Peter sagði:  ,,Það væri gaman að hitta þessa stelpu í dag og vita hvað varð um hana.  Er hún yngsti stuðningsmaður Liverpool sem nokkurntímann hefur farið á úrslitaleik í Evrópukeppninni ?  Okkur hlakkar alla til að fara til Aþenu og við munum ferðast þangað með bíl, fótgangandi, með ferjum og lestum."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan