| Sf. Gutt

Auðveldur sigur!

Sumarið byrjaði vel. Bikarmeistararnir unnu auðveldan 2:0 sigur á Wigan á Anfield Road í dag. Dirk Kuyt sá um bæði mörk leiksins. Þetta er búin að vera góð vika hjá Hollendingnum því hann og kona hans eignuðust annað barn sitt fyrr í vikunni. Með sigrinum tryggði Liverpool sér möguleika á að keppa í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Liverpool getur nú ekki hafnað neðar en í fjórða sæti og það er bara spurning hvort liðið endar leiktíðina í þriðja eða fjórða sæti. Eftir leiki dagsins er Liverpool fjórum stigum á undan Arsenal í þeirri baráttu.

Leikurinn var rólegur framan af. Liverpool var alltaf sterkari aðilinn en leikmenn liðsins spiluðu ekki af fullum krafti frekar en gegn Middlesborough á miðvikudagskvöldið. John Arne Riise ógnaði með langskoti eftir rúmar tíu mínútur en það fór framhjá. Fyrsta verulega hættulega færið kom á 23. mínútu. Boudewijn Zenden skaut þá yfir vel staðsettur. Eftir hálftíma náði Liverpool forystu. Jermaine Pennant brá sér þá yfir á vinstri kantinn og sendi fyrir markið. John Filan markvörður Wigan kom út úr markinu og hugðist grípa fyrirgjöfina. Dirk Kuty var hins vegar á undan honum. Hann stakk sér fram og skallaði boltann í autt markið úr miðjum teignum fyrir framan The Kop. Eftir þetta var tíðindalítið fram að hálfleik. Peter komst næst því að skora en skot hans fór rétt framhjá. Wigan átti varla sókn í hálfleiknum hvað þá marktækifæri.

Liverpool jók hraðann í síðari hálfleik. Mark Gonzalez var ágengur strax í upphafi hálfleiksins en það var bjargað í horn frá honum. Rétt á eftir fékk Dirk boltann í góðu færi inn á vítateig en hann reyndi að koma boltanum á samherja í stað þess skjóta á markið sem hann hefði vel getað. Hollendingurinn var hikaði hins vegar hvergi á 50. mínútu þegar hann þrumaði á markið rétt utan teigs. John varði hins vegar skotið. Tíu mínútum seinna kom fyrsta hættulega sókn Wigan. Sending kom frá vinstri en Sami Hyypia kom boltanum frá markinu. Þremur mínútum seinna kom Craig Bellamy inn fyrir Peter. Veilsverjinn átti eftir að eiga góða spretti og ógna vörn Wigan með hraða sínum.

Liverpool gerði svo til út um leikinn á 68. mínútu. John Arne og Craig léku saman á vinstri kantinum. Samvinna þeirra félaga endaði með því að John sendi hælsendingu á Craig sem var kominn inn á teig. Varnarmaður renndi sér fyrir Craig og kom boltanum frá honum. Það var skammgóður vermir því boltinn fór til Dirk Kuyt. Hann sneri baki í markið en náði að snúa varnarmann af sér og skora með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Mjög vel afgreitt hjá þeim hollenska.

Við þetta virtust gestirnir, sem eru í fallhættu, átta sig á því að eitthvað þyrfti að gera og rétt á eftir átti Henri Camara skot sem fór beint á Jose Reina. Á 70. mínútu fékk Mark Gonzalez dauðafæri til að skora en hann skallaði framhjá óvaldaður við fjærstöng eftir fyrirgjöf frá hægri. Um tíu mínútum seinna kom besta færi Wigan. Caleb Folan, sem kom inn sem varamaður fyrir Emile Heskey, náði þá góðum skalla eftir aukaspyrnu frá vinstri. Jose Reina varði hins vegar mjög vel. Átta mínútum fyrir leikslok fékk Mark enn gott færi. Hann komst nú inn á vítateig en John Filan varði með góðu úthlaupi. Dirk náði frákastinu en John varði aftur. Rétt á eftir átti Mark aftur skot að marki en John sá aftur við honum. Á lokamínútunni tók Craig Bellamy mikinn sprett upp vinstri kantinn. Hann sendi góða sendingu fyrir á Dirk Kuyt en hann skallaði beint á markvörðinn úr dauðafæri. Dirk hefði þarna átt að innsigla þrennu sína. Auðveldur sigur Liverpool var hins vegar löngu tryggður og um leið 3. eða 4. sæti sem veita þátttökurétt í undankeppni Meistaradeildar.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher (Agger 73. mín.), Hyypia, Riise, Pennant, Alonso, Zenden (Gerrard 70. mín.), Gonzalez, Kuyt og Crouch (Bellamy 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Mascherano.

Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (30. og 68. mín.).

Gul spjöld: Jamie Carragher og Xabi Alonso.

Wigan Athletic: Filan, Boyce, Jackson, De Zeeuw, Baines, Scharner, Taylor (Camara 46. mín.), Skoko, Landzaat (Aghahowa 70. mín.), Kilbane og Heskey (Folan 64. mín.). Ónotaðir varamenn: Pollitt og Granqvist.

Gul spjöld: Paul Scharner og Arjen De Zeeuw.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.003.

Maður leiksins: Dirk Kuyt. Sá hollenski spilaði sinn besta leik í langan tíma. Að venju var hann mjög duglegur en nú fann hann netmöskvana tvívegis í kaupbæti. Frábær leikur og vonandi á Dirk eftir að skora eitthvað meira það sem eftir er leiktíðar.

Rafael Benítez var mjög ánægður með þennan áfangasigur. "Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa tryggt okkur Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð þegar þrír leikir eru eftir. Við getum nú einbeitt okkur að undanúrslitunum í Meistaradeildinni. Við þurftum að vera einbeittir gegn Wigan en við stjórnuðum leiknum og ég gleðst fyrir hönd Dirk. Hann leggur alltaf hart að sér fyrir liðið. Hann er mjög góður markaskorari eins og hann sýndi með mörkunum tveimur."




 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan