| Grétar Magnússon

Stjörnurnar gætu verið hvíldar

Rafa Benítez er að velta því fyrir sér að hvíla nokkra lykilleikmenn í leiknum gegn PSV á morgun.  Sæti í undanúrslitum er ekki tryggt en Benítez gæti freistast til að leyfa leikmönnum sem ekki eiga fast sæti í byrjunarliði að spreyta sig.
 
Benítez mun taka lokaákvörðun um liðsuppstillingu eftir æfingu seinna í dag en hann er auðvitað varkár og segir að þessari rimmu sé ekki lokið:  ,,Ég hef ekki ákveðið hvernig ég stilli upp liðinu en við höfum ýmsa möguleika," sagði hann.
 
,,Best er að nálgast leikinn með því hugarfari að sigra og svo getum við kannski skoðað stöðuna í hálfleik og gert einhverjar breytingar.  Ég verð að tala við leikmennina og gera þeim grein fyrir því að þeir verði að leggja hart að sér.  Við getum farið í þennan leik með mikið sjálfstraust en við gleymum ekki hvað gerðist í Istanbul."
 
,,Það er ekki ómögulegt fyrir lið að snúa 3-0 stöðu sér í hag.  Auðvitað verður það erfitt undir venjulegum kringumstæðum að missa þetta forskot niður en við verðum að vera varkárir og sýna PSV virðingu."
 
Ronald Koeman, stjóri PSV, hefur ákveðið að gefa nokkrum ungum leikmönnum tækifæri í leiknum á morgun.  Óreyndir unglingar eins og Rens van Eijden og Olivier ter Horst eru í hópnum sem ferðast til Englands en þeir eru aðeins 18 ára gamlir.  Þeir leikmenn PSV sem ekki spila á morgun eru:  Ibrahim Afellay, Jan Kromkamp, Edison Mendez, Michael Reiziger og Alex.

Það verður því að segjast að lið PSV sé nokkuð vængbrotið enda hafa þeir ekki verið að spila vel að undanförnu og eru nú aðeins með tveggja stiga forystu í hollensku deildinni eftir að hafa tapað 2-1 fyrir NEC á laugardaginn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan