| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Skytturnar skotnar í kaf og Liverpool náði að bæta fyrir ófarir gegn þeim fyrr á leiktíðinni. Peter Crouch skoraði fyrstu þrennu sína með félagsliði. Þetta er leikur Liverpool og Arsenal í hnotskurn.

- Þetta var fyrsti leikur Liverpool eftir að þeir George Gillett og Tom Hicks fengu formlegt eignarhald á Liverpool Football Club.

- Þeir félagar og fjölskyldur þeirra gerðu sér ferð frá Bandaríkjunum til að horfa á leikinn.

- Þeir George og Tom gáfu sér tíma til að spjalla við áhorfendur fyrir leikinn og voru duglegir við að gefa eiginhandaráritanir. Sérstaklega mun George hafa verið duglegur í þeim efnum.

- Liverpool hafði fyrir þennan leik tapað þrívegis fyrir Arsenal á þessari leiktíð.

- Eitt tapið var í deildarleiknum í London en hin tvö komu á Anfield Road í F.A. bikarnum og Deildarbikarnum.

- Reyndar voru leikmenn Arsenal mættir til Liverpool í fjórða sinn á leiktíðinni. Upphaflega leik liðanna í Deildarbikarnum var frestað á síðustu stundu vegna þoku. Skytturnar voru komnar til Liverpool þegar leiknum var frestað! 

- Peter Crouch skoraði fyrstu þrennu sína fyrir félagslið.

- Eina þrennu hafði hann reyndar skorað áður á ferli sínum. Hana skoraði hann fyrir enska landsliðið þegar það lagði Jamaíkumenn að velli 6:0 í æfingaleik fyrir Heimsmeistarakeppnina í Þýskalandi.

- Peter er nú búinn að skora sextán mörk á leiktíðinni og er markahæstur leikmanna Liverpool.

- Daniel Agger skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni.

- Hann hefur skorað tvö þeirra á Anfield Road og bæði fyrir framan The Kop!

- John Arne Riise lék sinn 200. deildarleik með Liverpool. Alls hefur hann leikið 294 leiki með Liverpool.

- Jermaine Pennant lék gegn einu af þeim félögum sem hann lék áður með. Hann var leikmaður Arsenal frá 1999 til 2005.

Jákvætt:-) Þetta var einn besti leikur Liverpool á leiktíðinni og hver einasti maður í liðinu lék vel. Peter Crouch skoraði sína fyrstu þrennu fyrir Liverpool og hefur nú skorað sextán mörk á leiktíðinni. Það var alveg frábært að vinna stórsigur á Arsenal eftir ófarir fyrir þeim hingað til á leiktíðinni.

Neikvætt:-( Ég hugsa að margir stuðningsmenn Liverpool hefðu viljað að Robbie Fowler hefði fengið að koma inn á.

Þrír bestu leikmenn Liverpool samkvæmt Liverpoolfc.tv:

1. Peter Crouch. Átti framúrskarandi góðan leik og mótherjarnir réðu ekkert við hann. Hann skoraði fullkomna þrennu.

2. Fabio Aurelio. Átti frábærar sendingar frá vinstri kantinum. Brasilíumaðurinn sýndi sitt rétta andlit og átti sinn besta leik í rauðu peysunni hingað til.

3. Javier Mascherano. Sýndi hversu góður hann er og stjórnaði miðjunni með Xabi Alonso.


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan