| Sf. Gutt

Houllier fær Milan Baros aftur til liðs við sig

Gerard Houllier hefur fengið Milan Baros, fyrrum leikmann Liverpool, aftur til liðs við sig. Hann keypti hann til Liverpool frá Banik Ostrava árið 2001. Milan gekk svo til liðs við Aston Villa í ágúst 2005. Gerard Houllier hafði sannarlega ekki gleymt Tékkanum og fékk hann nú til liðs við sig í annað sinn. Milan er sem sagt kominn til frönsku meistaranna í Lyon og vonandi á honum eftir að vegna vel þar.

Það kemur kannski svolítið á óvart að Gerard Houllier skuli hafa keypt Milan í annað sinn því hann virtist hafa misst trú á Tékkanum undir lok valdaferils síns hjá Liverpool. Hann vildi til dæmis selja hann á þeim tíma.  

Milan lék 108 leiki með Liverpool og skoraði 27 mörk. Hann vann tvo titla með félaginu. Fyrst varð hann Deildarbikarmeistari 2003 og svo Evrópumeistari 2005. Sem fyrr segir fór hann frá Liverpool til Aston Villa. Þar gekk Milan heldur illa að festa sig í sessi og skoraði aðeins fjórtán mörk á ferli sínum þar.

Milan er eini leikmaður Liverpool til að verða markakóngur á stórmóti. Hann varð markakóngur Evrópukeppni landsliða 2004 í Portúgal. Hann skoraði þá fimm mörk fyrir Tékka. Milan hefur alltaf skorað mikið fyrir tékkneska landsliðið og þegar þetta er ritað hefur hann skorað 30 mörk í 52 landsleikjum.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan