| Sf. Gutt

Sjöundi farseðillinn til Cardiff er í höfn!

Evrópumeistarar Liverpool tryggðu sér, nú síðdegis í dag, farseðil í úrslitaleik F.A. bikarkeppninnar með því að leggja Englandsmeistara Chelsea að velli 2:1 á Old Trafford í Manchester. Stuðningsmenn Liverpool fá því enn eitt tækifærið, þann 13. maí, til að sækja Cardiff heim. Þetta var mikil og hörð rimma sem leikmenn Liverpool komust í gegn um og þeir unnu verðskuldaðan sigur. Þeir John Arne Riise og Luis Garcia skoruðu mörk Liverpool en Ditier Drogba minnkaði muninn en það voru stuðningsmenn Liverpool sem fögnuðu í leikslok í Manchester líkt og í gærkvöldi þegar Unglingabikarinn vannst í þessari sömu borg. Það kemur í ljós, á Villa Park, á morgun hvort Liverpool mætir Middlesborough eða West Ham United í úrslitaleiknum á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff. 

Þessi tíunda rimma Liverpool og Chelsea á tveimur leiktíðum byrjaði kannski fjörlegar en margir höfðu átt von á. Chelsea hóf leikinn betur og vörn Liverpool lenti nokkrum sinnum í vanda á fyrstu mínútunum en svo náðu Evrópumeistararnir undirtökunum. Xabi Alonso átti skot sem markvörður Chelsea hélt ekki. En Chelsea fékk fyrsta hættulega færið þegar tæpar tuttugu mínútur voru liðnar þegar Didier Drogba, sem var greinilega rangstæður, komst inn fyrir vörn Liverpool en hann skaut framhjá úr upplögðu færi einn gegn Jose Reina. Það voru hins vegar Evrópumeistararnir sem komust yfir á 21. mínútu. Liverpool fékk þá aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Chelsea þegar dæmt var hættuspark á John Terry. Leikmönnum Chelsea fannst dómurinn rangur en John sýndi Luis vissulega takkana. John Arne Riise rúllaði boltanum stutt til Steven Gerrard sem stillti boltanum upp fyrir Norðmanninn sem skaut að marki. Einhvernvegin náði boltinn að smjúga í gegnum varnarvegg Chelsea á milli þeirra Paulo Ferreira and Frank Lampard og í markið án þess að Carlo Cudicini kæmi nokkrum vörnum við. Mikill fögnuður braust út hjá stuðningsmönnum Liverpool. Leikmenn Liverpool höfðu nú greinilega náð frumkvæðinu í leiknum og voru miklu sterkari fram að hálfleik. Á 35. mínútu munaði litlu að Peter Crouch næði að koma boltanum í mark Chelsea. John Terry skallaði þá boltann aftur á Carlo Cudicini. Skallinn var laus og Peter reyndi að ná boltanum. Hann og Carlo skullu hins vegar saman þegar þeir reyndu að ná boltanum og lágu báðir eftir. Þeir brögguðust þó eftir að hugað var að þeim. Á lokamínútu hálfleiksins var Luis Garcia nærri búinn að skora eftir að Steven Gerrard hafði brotist inn í teiginn hægra meginn. Steven sendi fyrir en Luis skaut yfir úr mjög góðu færi.

Chelsea lék betur eftir leikhlé og á 49. mínútu fögnuðu stuðningmenn þeirra marki. Arjen Robben, sem kom inn sem varamaður í leikhléi, sendi þá fyrir markið úr aukaspyrnu. John Tery stökk manna hæst og skallaði í mark. Markið var hins vegar dæmt af þar sem dómarinn taldi að John hefði haldið John Arne Riise niðri þegar hann stökk upp. Í stað þess að jafna þá lenti Chelsea tveimur mörkum undir á 53. mínútu. Sending kom í átt að marki Lundúnaliðsins. William Gallas átti misheppnaðan skalla í átt að eigin marki. Luis Garcia var eldsnöggur að átta sig og skaust inn fyrir vörnina. Hann lék að markinu og skaut svo fallegu bogaskoti sem hafnaði í markinu vinsta megin úti við stöng. Allt trylltist af fögnuði hjá stuðningsmönnum Liverpool sem voru fyrir aftan markið sem Luis skoraði í! Hann var litlu seinna næstum búinn að skora aftur en markvörður Chelsea varði naumlega. Liverpool hafði öll ráð Chelsea í hendi sér þar til þeir Damien Duff og Joe Cole voru sendir til leiks. Chelsea náði að minnka muninn á 70. mínútu. John Arne Riise náði þá ekki að skalla frá þegar boltinn kom inn á vítateiginn. Boltinn fór hátt í loft upp. Jose Reina hugðist kýla boltann frá en Fílabeinsstrandarmaðurinn Didier Drogba stökk hærra og skallaði boltann í autt markið. Markið færði Chelsea von og liðið sótti mjög það sem eftir lifði leiks. Leikmenn Liverpool lögðu sig alla fram við að verja fenginn hlut og lengst af gekk það áfallalítið. Arjen Robben komst þó í gott færi en laust skot hans fór beint í fangið á Jose Reina. Það var mikil spenna undir lokin þegar Englandsmeistararnir lögðu allt í sölurnar. Á lokamínútunni fengu þeir loks dauðafæri. Jose Cole fékk boltann óvaldaður inn á markteig en hann þrumaði honum yfir úr dauðafæri. Rétt á eftir upphófst gríðarlegur fögnuður hjá stuðningsmönnum Evrópumeistaranna sem voru mjög fjölmennir á Old Trafford!

Aftur var það Spánverjinn Luis Garcia sem réði úrslitum í undanúrslitum gegn Chelsea. Hann skoraði sigurmarkið gegn Lundúnaliðinu í undanúrslitum Meistaradeildarinnar fyrir ári og aftur réði mark frá honum úrslitum gegn Chelsea. Það getur þó engin í herbúðum Chelsea þráttað um að boltinn hafi ekki farið inn fyrir marklínuna í þetta skiptið! Leikmenn Liverpool léku gríðarlega vel í leiknum. Hver einn og einasti maður liðsins lagði sig allan fram og þeir uppskáru eftir því. Stuðningur áhorfenda fullkomnaði svo sigruinn. Hjarðir stuðningsmanna Liverpool munu því halda til Cardiff í sjöunda sinn þann 13. maí. Þar gefst Liverpool tækifæri á að vinna F.A. bikarinn í sjöunda sinn!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso, Sissoko, Kewell (Traore 78. mín.), Garcia (Morientes 82. mín.) og Crouch (Cissé 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Hamann.

Mörk Liverpool: John Arne Riise (21. mín.) og Sans Luis Garcia (53. mín.)

Gul spjöld: Jamie Carragher og Jose Reina.


Chelsea: Cudicini, Ferreira, Gallas, Terry, Del Horno (Robben 45. mín.), Essien, Lampard, Makelele,Geremi (Duff 62. mín.), Crespo (Joe Cole 62. mín.) og Drogba. Ónotaðir varamenn: Cech og Carvalho.

Mark Chelsea: Didier Drogba (70. mín.)

Gult spjald: Didier Drogba.

Áhorfendur á Old Trafford: 64.575.

Rafael Benítez, sem þarna kom Liverpool í fimmta úrslitaleikinn á stjórnartíð sinni, var auðvitað ánægður með liðsmenn sína eftir leikinn: ,,Við sýndum fólki að minnsta kosti að við getum unnið þá. Þeir eru með marga góða leikmenn innan sinna raða en það höfum við líka. Við höfum líka frábæran liðsanda. Lykillinn að sigrinum var hversu gríðarlega ákveðnir leikmenn mínir voru. Við erum komnir í úrslitaleikinn og mínir menn hafa skilað frábæru verki. Stuðningsmenn okkar voru ótrúlegir eins og venjulega og þeir studdu við bakið á okkur allan leikinn."

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan