| Sf. Gutt

Guð rændur marki

Það var nöturlegur endir í kuldanum í Liverpool. Guð var rændur undir lokin þegar sigurmark hans var ranglega dæmt af rétt fyrir leikslok. Fáheyrðir yfirburðir Evrópumeistaranna dugðu ekki til sigurs gegn Charlton undir kvöld í gær. Liverpool lék nógu vel til þess að vinna leikinn en líkt og svo oft áður þá herjaði markaþurrðin á liðið. Stigið sem fékkst kom þó Liverpool upp í annað sætið en stigin áttu að vera þrjú. En leikmenn Liverpool geta bara sjálfum sér um kennt að hafa ekki unnið.

Liverpool byrjaði af miklum krafti og það var greinilegt að markmið liðsmanna var að gera út um leikinn sem allra fyrst. Það virtist bara vera spurning um hvenær fyrsta markið myndi koma. Þeir Harry Kewell og Robbie Fowler áttu skot sem fóru rétt framhjá. En það var Thomas Myhre, fyrrum markvörður Everton, sem átti eftir að reynast leikmönnum Liverpool erfiður ljár í þúfu. Hann varði frábærlega frá Hermanni Hreiðarssyni þegar Hermann reyndi að bægja fyrirgjöf Steven Gerrard frá markinu. Thomas varði svo tvívegis frábærlega frá Djibril Cissé undir lok hálfleiksins. Fyrst skalla og svo gott skot úr teignum. Það var með ólíkindum að Liverpool skyldi ekki vera með örugga forystu í leikhléi miðað við alla yfirburðina. Charlton komst varla fram yfir miðju og Jose Reina varð að halda á sér hita með einhverju öðru móti en að verja frá gestunum. 

Það var enginn breyting á gangi máli eftir leikhlé. Hver sókn Liverpool rak aðra en ekkert gekk. Vörn gestanna gaf fá færi á sér og bak við hana stóð Norðmaðurinn vaktina. Besta færi leiksins fékk Peter Crouch eftir klukkutíma. Hann fékk þá frábæra sendingu inn á teiginn frá Djibril en skallaði mátleysislega að markinu. Hann hefði bæði getað skallað miklu fastar og betur eða tekið boltann niður því hann var dauðafrír. Fimmtán mínútum fyrir leikslok átti Djibril skalla yfir úr góðu færi. Charlton átti varla sókn og Jose Reina þurfti ekki að verja skot. En Liverpool skoraði loksins á síðustu mínútu leiksins. Steven gaf stutt úr aukaspyrnu á Xabi sem skaut að marki. Skotið var misheppnað en boltinn rataði til Robbie Fowler sem var alveg frír inn á teignum. Hann lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum í markið. Allt trylltist af fögnuði þar til menn sáu að annar línuvörðurinn var búinn að dæma rangstöðu. Því miður þá hafði línuvörðurinn rangt fyrir sér og markið var fullkomlega löglegt. Annað mark sem dæmt er af Robbie eftir endurkomuna. Það var sárgrætilegt að markið var dæmt af og Liverpool fékk aðeins eitt stig en ekki þrjú eins og liðið átti að ná. 

Stuðningmenn Liverpool sýndu Gary McAllister hlýhug fyrir leikinn þegar þeir sungu nafn hans. Kona hans lést nú fyrir helgina.

Liverpool: Reina, Kromkamp, Carragher, Hyypia (Riise 45. mín.), Traore, Cissé, Hamann (Alonso 73. mín.), Gerrard, Kewell, Crouch (Morientes 80. mín.) og Fowler. Ónotaðir varamenn: Dudek og Finnan.

Gult spjald: Djibril Cissé.

Charlton Athletic: Myhre, Young, Perry, Hreidarsson, Spector, Ambrose (Powell 87. mín.), Kishishev (Euell 77. mín.), Holland, Hughes, D. Bent og M. Bent (Bothroyd 53). Ónotaðir varamenn: Andersen og Thomas.

Gult spjald: Luke Young.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.892.

Rafael Benítez var skiljanlega ekki alveg ánægður eftir leikinn. ,,Því miður þá höfum við ekki verið að skora mörk í síðustu leikjum. Við gerum allt nema að skora og við erum að skapa fullt af marktækifærum. Markverðir hinna liðanna eru alltaf bestu menn sinna liða gegn okkur. En við verðum bara að halda okkar striki. Ég sá að flaggið kom upp en Robbie var ekki rangstæður. Ég vil ekki kenna þeim um sem dæmdu leikinn því það sem eftir stendur er að við þurfum að skora úr einhverjum af öllum þessum færum sem við erum að skapa okkur."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan