| Sf. Gutt

Önnur erindisleysa í höfuðstaðinn

Liverpool hafði ekki erindi sem erfiði í höfuðstaðinn þegar liðið laut í gras í Dalnum í gærkvöldi. Markaþurrð síðustu haustdaga er farin að láta á sér kræla á nýjan leik. Evrópumeistararnir hafa nú aðeins skorað eitt mark í síðustu fjórum deildarleikjum og afrakstur þeirra leikja segir sína sögu. Eitt stig af tólf mögulegum. Fyrir leik vakti það nokkra ánægju stuðningsmanna Liverpool að sjá Jerzy Dudek fá tækifæri í markinu í fyrsta sinn frá því í Istanbúl. Var Pólverjanum vel tekið þegar hann kom til leiks. Steven Gerrard var meiddur og var í hvíld heima við.

Liverpool tók leikinn strax í sínar hendur. Einstefna var að marki Charlton og boltinn gekk á köflum hratt og vel manna á milli. Samt náðu sóknarmenn Liverpool, sem voru þrír inni á vellinum, ekki að koma sér í almennilegt færi. Þeir Peter og Fernando voru tvívegis nærri því búnir að koma sér í góð færi en þeir náðu ekki að koma skotum á markið. Allt í einu og upp úr þurru fór allt í vitleysu. Á 42. mínútu slapp Darren Bent inn á vítateig Liverpool. Jerzy Dudek  kom út á móti honum. Darren féll við og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Leikmenn Liverpool mótmæltu harðlega og þá sérstaklega fyrirliðinn Jamie Carragher. Leikmenn Charlton vildu að Jerzy yrði rekinn af velli en hann var aðeins bókaður. Vítaspyrnan var mjög vafasöm og það mætti segja mér að Jerzy hefði aldrei snert Darren. En Darren tók sjálfur spyrnuna og þótt Jerzy tæki gamalkunnug dansspor á marklínunni þá dugði það ekki og heimamenn voru komnir yfir. Markið var gjörsamlega gegn gangi leiksins og ekki lagaðist það þremur mínútum seinna. Alexei Smertin sendi þá boltann inn á vítateiginn. Jamie Carragher náði ekki að hreinsa og Luke Young þrumaði boltanum í markið. Rétt á eftir var flautað til hálfleiks. Staðan miðað við gang leiksins var út í hött en engu að síður staðreynd.

Liverpool hélt áfram að sækja eftir hlé en sem fyrr með engum árangri. Reyndar gátu heimamenn tvívegis aukið forystuna. Fyrst átti Darren Bent langskot í þverslá og nafni hans Marcus skaut svo í innanverða stöngina úr dauðafæri. Robbie Fowler leysti Peter Crouch af hólmi en allt kom fyrir ekki. Það sagði sína sögu að fyrsta skotið sem Thomas Myhre þurfti að verja kom ekki fyrr en langt var liðið á leik. Fernando Morientes átti þá fast skot sem Thomas varði vel. Síðasti sigurleikur Liverpool í höfuðstaðnum kom í Dalnum fyrir ári en síðan hefur allt gegnið í móti þar í borg. Nema þá í Evrópuleikjum gegn Chelsea. 

Evrópumeistararnir eru nú í mótbyr. Eitt stig og eitt mark í síðustu fjórum deildarleikjum segja sína sögu. Í öllum leikjunum hefur Liverpool lengi vel haft öll tök á andstæðingum sínum. En það dugir skammt að ráða lögum og lofum ef mörkin láta á sér standa. Leikur liðsins minnir nú óþægilega á þegar hvað verst gekk í haust. Þá var tap í Lundúnum vendipunktur og mikil sigurganga fylgdi í kjölfarið. Vonandi verður aftur svo.

Charlton Athletic: Myhre, Young, Perry, Hreidarsson, Spector, Hughes, Kishishev, Smertin (El Karkouri 83. mín.), Thomas (Ambrose 79. mín.), Marcus Bent og Darren Bent. Ónotaðir varamenn: Andersen, Euell og Bothroyd.

Mörk Charlton: Darren Bent víti, (42. mín.) og Luke Young (45. mín.)

Gul spjöld: Jermaine Thomas og Chris Perry.

Liverpool: Dudek, Finnan, Hyypia (Riise 70. mín.), Carragher, Traore, Cisse (Kromkamp 78. mín.), Sissoko, Alonso, Kewell, Morientes og Crouch (Fowler 60. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Hamann.

Gul sjöld: Jerzy Dudek og Jamie Carragher.

Áhorfendur á The Valley: 27.111.

Rafael Benítez var þungur á brún eftir leikinn. ,,Það er erfitt að útskýra svona tap. Við verðum að læra af mistökum okkar sem allra fyrst. Þetta átti ekki að vera vítaspyrna en við misstum boltann þegar við höfðum fulla stjórn á leiknum."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan