| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Það var stál í stál á Anfield Road. Eða var það lok, lok og læs og allt í stáli? Evrópumeistarnir settu að minnsta kosti met. Þetta er leikur Liverpool og Manchester United í hnotskurn.

- Þarna gengu á hólm tvö sigursælustu knattspyrnufélög á Englandi. Liverpool hefur unnið fjörutíu og tvo stórtitla í sögu félagsins. Þar af eru ellefu Evróputitlar. Stórtitlar Manchester United munu bara vera tuttugu og níu ef ég hef talið rétt. Þar er aðeins að finna fjóra Evróputitla. Skemmtilegar tölur sem ekki verða hraktar.

- Þetta var 145. rimma liðanna í efstu deild.

- Þetta var fyrsti markalausi leikurinn milli þessara liða frá því liðin skildu án marka á Old Trafford haustið 1991.

- Fyrir þennan leik hafði Manchester United unnið þrjár leiktíðir í röð á Anfield Road. Það hafði liðið aldrei afrekað áður.

- Fyrir þennan leik voru bæði lið ósigruð í deildinni á þessari leiktíð. Það breyttist ekkert.

- Í síðustu tíu leikjum fyrir þennan höfðu liðin unnið fimm leiki hvort. Jafntefli kom því kannski ekki á óvart.

- Manchester United hafði unnið fimm af síðustu sex deildarleikjum liðanna. En Liverpool vann Deildarbikarúrslitaleikinn 2003 , sællar minningar, þegar þessi lið leiddu saman hesta sína í Cardiff.

- Liverpool fékk ekki á sig mark í leiknum og Jose Reina hefur ekki þurft að sækja boltann í markið, í deildinni, það sem af er þessari leiktíð.

- Aldrei áður hefur Liverpool haldið hreinu í fjórum deildarleikjum í röð í upphafi leiktíðar. Nýtt félagsmet leit því dagsins ljós.

- Liverpool er enn ósigrað í deildinni en hefur aðeins unnið einn af fyrstu fjórum leikjunum.

- Xabi Alonso er enn lang markahæstur leikmanna Liverpool í deildinni með sitt eina mark.

- Steven Gerrard hefur á hinn bóginn skorað flest mörk á leiktíðinni. Hann hefur skorað sjö mörk. Þau hafa öll komið í Evrópukeppninni.

- Fyrstu tveir deildarleikir Liverpool á þessari leiktíð hafa verið gríðarlega vel sóttir. Rúmlega 44.000 áhorfendur hafa komið á leikina tvo. Það fækkar sem sagt ekki áhorfendum hjá Evrópumeisturunum eins og sumum öðrum liðum á Englandi!

- Stuðningsmenn Liverpool hafa nú merkt The Kop með borða sem á stendur ,,Svæði Evrópubikareiganda"!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock (Traore 84. mín.), Garcia, Gerrard, Alonso, Riise, Crouch (Cisse 79. mín.) og Pongolle (Sissoko 71. mín.). Ónotaðir varamenn Carson og Josemi.

Gul Spjöld: Jamie Carragher og Djimi Traore.

Man Utd: Van der Sar, O´Shea, Ferdinand, Silvestre, Richardson, Smith, Scholes, Keane (Giggs 88. mín.), Ronaldo (Park 90. mín.), Rooney (Fletcher 88. mín.) og van Nistelrooy. Ónotaðir varamenn: Howard og Bardsley.

Gul spjöld: Paul Scholes og Roy Keane.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.917.

Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Steven Gerrard var mjög sterkur. Sérstaklega var hann góður í síðari hálfleik. Hann átti tvær mjög góðar marktilraunir. Hollendingurinn í marki gestanna mátti hafa sig allan við að verja þrumuskot hans af löngu færi. Fyrirliðinn átti mjög kraftmikinn leik í síðari hálfleik og dreif liðið áfram. 

Jákvætt :-) Liverpool hélt markinu hreinu og setti nýtt félagsmet. Vörnin var gríðarlega sterk og gaf vart höggstað á sér. Steven Gerrard dreif menn sína áfram eftir leikhlé. Liverpool virtist aldrei vera í neinni hættu með að tapa þessum leik. Gestirnir lögðu mest upp úr vörninni í síðari hálfleik og virtust sætta sig við jafntefli. Það er kannski ekki skrýtið að leggja upp með það á útivelli gegn Evrópumeisturunum!

Neikvætt :-(  Leikmenn Liverpool náðu ekki að skora mark og liðsmenn hafa aðeins náð að skora eitt mark í deildarleikjunum fjórum sem búnir eru. Ég hefði viljað að Djibril Cissé hefði komið fyrr til leiks og hefði þá leikið í framlínunni með Peter Crouch. Á hinn bóginn gerði Djibril lítið eftir að hann kom inn á. Það var alveg ótrúlegt að sjá hann heimta vítaspyrnu, undir lok leiksins, í stað þess að elta boltann sem var rétt hjá honum. Þessi viðbrögð hans eru því miður ekki einsdæmi um þessar mundir. Reyndar gerði hann þetta tvisvar í leiknum þær ellefu mínútur sem hann spilaði.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Það var ekkert gefið eftir frá fyrstu mínútu. Leikmenn Liverpool voru heldur sókndjarfari og varnarmenn gestanna voru oft í vandræðum með Peter Crouch. Fyrsta hættulega færi leiksins kom þegar Steven Gerrard sendi aukaspyrnu fyrir markið. Boltinn fór yfir alla og rétt framhjá markinu. Ruud van Nistelrooy komst svo í gott færi stuttu fyrir hálfleik. Hann lyfti boltanum yfir Jose Reina sem kom út á móti honum en boltinn fór líka yfir markið. Fleiri færi sem eitthvað kvað að sköpuðust ekki. Leikmenn Liverpool færðu sig upp á skaftið eftir því sem leið á síðari hálfleikinn. Gestirnir lögðu nú mesta áherslu á að verjast og leikmenn Liverpool komust í fá færi. Steven Gerrard átti tvö bestu færin. Fyrst skallaði hann rétt yfir og svo varði Edwin Van der Saar fast langskot hans.  Leikmenn Liverpool voru mjög ákvaðnir á lokakafla leiksins. Luis Garcia skaut rétt framhjá og svo skallaði Spánverjinn yfir úr all góðu færi. Gestirnir vörðu mark sitt með kjafti og klóm og niðurstaða rimmunnar varð markalaust jafntefli. Í heild verður að telja það sanngjarna niðurstöðu þrátt fyrir að Evrópumeistararnir hafi verið aðeins nær sigri.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan