| Sf. Gutt

Liverpool kaupir Giovanni Leoni

Í dag, á fyrsta leikdegi Úrvalsdeildarinnar, var tilkynnt að Liverpool hefði keypt Giovanni Leoni. Liverpool keypti hann frá ítalska liðinu Parma. Kaupupphæðin er 26 milljónir sterlingspunda en gæti hækkað samkvæmt ákvæðum í samningi hans. Hann gerði sex ára samning við Liverpool.  

Giovanni Leoni fæddist í Róm höfuðborg Ítalíu 21. desember 2006. Hann æfði í yngri flokkum hjá Padova og lék fyrsta aðalliðsleik með liðinu í þriðju deild á leiktíðinni 2022/23. Hann var þá bara 16 ára. Á leiktíðinni á eftir var hann lánaður til Sampdoria sem var í annarri deild. Giovanni gerði svo samning við Parma fyrir einu ári. Parma er í efstu deild og hann þótti spila mjög vel með liðinu þrátt fyrir ungan aldur. Giovanni hefur leikið með undir 18 og undir 19 ára landsliðum Ítalíu. 

Giovanni Leoni þykir efnilegasti miðvörður Ítalíu og reyndar sá efnilegasti, í þeirri stöðu, sem þar hefur komið fram í langan tíma. Hann er hávaxinn og sterkur. Ítalinn er talinn nútímamiðvörður með góðan leikskilning.

Kaupupphæðin er nokkuð há ef mið er tekið af ungum aldri Giovanni. Talið er að Liverpool hafi viljað tryggja sér piltinn áður en önnur stórlið myndu ná í hann. Þannig má segja að hann sé keyptur til framtíðar litið. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan