| Sf. Gutt

Leikjatilfærslur

Búið er að færa fyrstu leiki Liverpool á komandi keppnistímabili til og tímasetja þá. Hér er listi yfir leikina með nýjum  tímasetningum. 

Englandsmeistararnir leika opnunarleikinnn í efstu deild á Englandi þessa leiktíðina ásamt Bournemouth að kveldi föstudagsins 15. ágúst. Flautað verður til leiks á Anfield Road klukkan sjö að íslenskum tíma. 

Fyrsti útileikur Liverpool í deildinni verður á St James Park í Newcastle mánudagskvöldið 25. ágúst. Leikurinn við Newcastle United hefst á sama tíma og leikurinn við Bournemouth eða klukkan sjö. 

Englandsmeistararnir mæta silfurliði Arsenal á Anfield sunnudaginn 31. ágúst. Flautað verður til leika klukkan hálf fjögur síðdegis. 

Sunnudaginn 14. september, eftir landsleikjahlé, mætir Liverpool nýliðum Burnley á útivelli. Leikurinn hefst klukkan eitt. 

Liverpool liðin leiða saman hesta sína á Anfield laugardaginn 20. september. Leikurinn byrjar klukkan hálf tólf. Það var einmitt í þessum leik á síðasta keppnistímabili sem Diogo heitinn Jota skoraði sitt síðasta mark fyrir Liverpool. Ódauðlegt sigurmark ef svo mætti að orði komast!

Tekið skal fram að fyrirvari er á tímasetningunni á leik Liverpool og Everton. Ef Liverpool fær leikdag á fimmtudeginum á undan færist leikurinn til. Þá líklega til sunnudagsins 21. september. Það er þó ekki tiltekið hvaða tími er til vara. 

Allir leiktímar eru að íslenskum tíma. Sumartími á Englandi er klukkutíma á undan okkar tíma. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan