| Sf. Gutt

Stórsigur í Deildarbikarnum!

Liverpool hóf vörn sína á Deildarbikarnum eins og best varð á kosið. Rauði herinn lenti undir en sneri leiknum sér í hag og vann stórsigur 5:1!

Eins og oftast fyrir Deildarbikarleiki var liði Liverpool breytt mikið frá síðasta deildarleik. Aðeins Caoimhin Kelleher og Darwin Núnez héldu stöðum sínum frá sigrinum á Bournemouth. Reyndar voru margir á bekknum sem mikið hafa spilað frá upphafi leiktíðar. 

Hamrarnir byrjuðu betur og áttu nokkrar efnilegar sóknir. Þeir komust svo yfir á 21. mínútu. Varnarmenn Liverpool náðu ekki að hreinsa eftir horn frá vinstri. Vandræðagangurinn endaði með því að Wataru Endo sparkaði boltanum í Jarell Quansah og af honum fór boltinn í markið af stuttu færi. Ótrúlegt mark!

En Liverpool svaraði hratt og örugglega fjórum mínútum seinna. Cody Gakpo tók rispu vinstra megin og gaf fyrir markið á Federico Chiesa. Hann klippti boltann aftur fyrir sig á lofti. Ekki virtist mikil hætta á ferðum þó boltinn stefndi í átt að marki West Ham. En Diogo Jota skaut sér fram og skallaði boltann í markið af stuttu færi. Dæmigert mark hjá Portúgalanum er alltaf vel vakandi við markið. Liverpool tók nú öll völd á vellinum. Ekkert var þó meira skorað í hálfleiknum. 

En eftir aðeins fjögurra mínútna leik í síðari hálfleik var Liverpool komið yfir. Curtis Jones hóf sókn á eigin vallarhelmingi. Framar á vellinum kom hann aftur við sögu í sókninni þegar hann renndi boltann inn í vítateiginn vinstra megin. Þar var Diogo mættur til að senda boltann örugglega neðst út í hornið fjær. 

Á 64. mínútu náði Carlos Soler skoti en Caoimhin Kelleher varði. Rétt á eftir varði Caoimhin skot úr vítateignum. Hann hélt ekki boltanum sem fór til Max Kilman. Hann náði að leggja boltann fyrir sig uppi við markið en Írinn lokaði á hann og varði í horn. Á 74. mínútu gerði Liverpool út um leikinn. Varamaðurinn Alexis Mac Allister átti þrumuskot úr vítateignum sem markmaður West Ham varði með fæti. Boltinn spýttist út í teiginn beint til Mohamed Salah sem smellti boltanum viðstöðulaust upp undir þaknetið! Vel gert hjá varamanninum! 

Tveimur mínútum eftir markið fékk Edson Álvarez sitt annað gula spjald og þar með hafði hann lokið leik. Á 80. mínútu átti Alexis bylmingsskot utan vítateigs sem Lukasz Fabianski varði stórvel í stöng. Cody tók frákastið en náði ekki að stýra boltanum í markið heldur beint á Lukasz.

Á 90. mínútu fékk Cody boltann við vinstra vítateigshornið. Hann lék inn í teiginn og gaf á Darwin Núnez sem lagði boltann strax til baka á Hollendinginn sem lék aðeins til hliðar áður en hann skaut boltanum neðst í nærhornið. Þremur mínútum seinna var Cody aftur á ferðinni. Hann fékk boltann á svipuðum slóðum, lék framhjá varnarmanni og skaut að marki. Aftur endaði boltinn í markinu en nú með viðkomu í varnarmanni sem fipaði Lukasz í markinu. Tvö mörk á þremur mínútum og góður sigur varð að stórsigri!

Þetta var endurtekið efni frá síðasta keppnistímabili þegar Liverpool vann West Ham 5:1 í Deildarbikarnum á leið sinni að sigri í keppninni. Liverpool spilaði lengst af mjög vel. West Ham sýndi seiglu en Liverpool var einfaldlega betra liðið!

Mörk Liverpool: Diogo Jota (25. og 49. mín.), Mohamed Salah (74. mín.) og Cody Gakpo (90. og 90+3. mín.).

Mark West Ham United: Jarell Quansah, sm, (21. mín.). 

Gul spjöld: Edson Álvarez, Lucas Paquetá 

Rautt spjald: Edson Álvarez.

Áhorfendur á Anfield Road: 60.044.

Maður leiksins: Cody Gakpo. Hollendingurinn skoraði tvö og lagði upp eitt. Þar utan var hann alltaf ógnandi. 

Arne Slot: ,,Það sem gladdi mig mest var að þó svo margir nýir menn kæmu inn í liðið þá voru þeir að reyna að láta á sér bera. Þeir hugsuðu bara um að leggja sig fram fyrir liðið."

Fróðleikur

- Diogo Jota er nú kominn með þrjú mörk á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði fjórða mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Öll fjögur mörkin hafa komið í síðari hálfleik.

- Cody Gakpo skoraði sín fyrstu mörk á sparktíðinni. 

- Tayler Morton spilaði sinn fyrsta leik á leiktíðinni. 

- Liverpool hefur unnið West Ham United í síðustu níu leikjum liðanna í öllum keppnum.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan