| Sf. Gutt

Til hamingju!

Arne Slot á afmæli í dag. Hann fagnaði 46 ára afmæli sínu á San Siro í Mílanó í kvöld þegar Liverpool vann AC Milan 1:3. Sannarlega góð afmælisgjöf! 

,,Venjulega heldur maður upp á afmælið sitt með vinum og fjölskyldunni. En það var skemmtilegt að hafa svona öðruvísi afmælisdag með því að stjórna fyrsta Meistaradeildarleiknum hjá Liverpool. Við vorum að spila á móti sögufrægu félagi á mögnuðum leikvangi. Þessi leikvangur hefur líka mikla þýðingu fyrir Hollendinga." Þarna vísar Arne í að margir frábærir hollenskir knattspyrnumenn hafa leikið á San Siro leikvanginum. Bæði með AC Milan og Inter. 

Arend Martijn Slot, eins og Hollendingurinn heitir fullu nefni, fæddist 17. september 1978 í þorpinu Bergentheim sem er í austurhluta Hollands. Arne ólst upp í Bergentheim og byrjaði að æfa knattspyrnu með staðarliði bæjarins. 

Á atvinnumannaferli sínum lék Arne með FC Zwolle, NAC Breda, Sparta Rotterdam og PEC Zwolle. Hann lagði skóna á hilluna 2013. Þremur árum seinna hóf hann framkvæmdastjóra feril sinn hjá Cambuur. Hann stýrði svo AZ Alkmar frá 2019 til 2020. Sumarið 2021 tók hann við Feyenoord og stýrði liðinu þangað til núna í vor. Hann tók svo við Liverpool 1. júní síðastliðinn. 

Arne kom Feynoord í úrslit Sambandsdeildarinnar vorið 2022. Liðið tapaði 1:0 í úrslitaleiknum fyrir Roma. Á leiktíðinni 2022/23 gerði Arne Feyenoord að Hollandsmeisturum. Núna í vor vann liðið hollensku bikarkeppnina. Arne gerði því góða hluti hjá Rotterdam liðinu. 

Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Arne til hamingju með afmælið og sigurinn!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan