| Sf. Gutt

Niðurtalning - 5. kapítuli

Það styttist í úrslitaleikinn. Enn skal haldið áfram með fróðleik af ýmsu tagi um Deildarbikarinn fyrr og nú.

+ Stærsti sigur Liverpool í Deildarbikarnum kom þann 23. september 1986. Liverpool:Fulham. 10:0. Steve McMahon 4, Ian Rush 2, John Wark 2, Ronnie Whelan og Steve Nicol skoruðu mörkin. 


+ Ian Rush hefur oftast leikmanna Liverpool orðið Deildarbikarmeistari. Hann var í fimm sigurliðum Liverpool. Þeir Kenny Dalglish, Phil Neal, Alan Kennedy og Sammy Lee unnu keppnina fjórum sinnum.

+ Liverpool hefur oftast allra liða unnið Deildarbikarinn eða níu sinnum.

+ Chelsea hefur unnið keppnina fimm sinnum. 



+ Liverpool og Chelsea hafa sex sinnum áður leikið til úrslita um titla. Chelsea vann úrslitaleikinn um Deildarbikarinn 2005 3:2 eftir framlengingu. Í úrslitaleiknum um FA bikarinn 2012 hafði Chelsea aftur betur 2:1. Liverpool vann Skjaldarleik liðanna árið 2006 2:1.  Liðin léku svo um Stórbikar Evrópu 2019. Jafnt var 2:2 eftir framlengingu en Liverpool vann 5:4 í vítaspyrnukeppni. Árið 2022 spiluðu liðin bæði um Deildarbikarinn og FA bikarinn. Liverpool vann báða bikarana í vítaspyrnukeppni. Fyrst Deildarbikarinn 11:10 og svo FA bikarinn 6:5. 



+ Liverpool vann keppnina síðast árið 2022 eftir að hafa unnið Chelsea 11:10 í vítaspyrnukeppni eftir 0:0 jafntefli á Wembley. 

+ Jordan Henderson tók við Deildarbikarnum á Wembley árið 2022. Áður höfðu Phil Thompson, Graeme Souness þrisvar sinnum, Ian Rush, Robbie Fowler, Sami Hyypia og Steven Gerrard tekið við Deildarbikarnum sem fyrirliðar Liverpool.


+ Reyndar tók Bob Paisley, framkvæmdastjóri Liverpool, við Deildarbikarnum árið 1983. Hann var þá að stjórna Liverpool á sinni síðustu leiktíð og fyrirliðinn Greame Souness lét hann fara fyrir liðinu og taka við bikarnum eftir 2:1 sigur á Manchester United.

+ Átta af þeim 20 leikmönnum sem voru í leikmannahópi Liverpool í úrslitaleiknum 2022 eru farnir. 


+ Að öllu forfallalausu verður Virgil van Dijk fyrirliði Liverpool á sunnudaginn.

+ Fimm leikmenn Liverpool hafa verið valdir Menn leiksins eftir Deildarbikarúrslitaleik. Árið 1995 varð Steve McManaman fyrir valinu, Robbie Fowler var valinn árið 2001, Jerzy Dudek hlaut heiðurinn árið 2003, Stewart Downing 2012 og svo Virgil van Dijk árið 2022.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan