| Sf. Gutt

Gemma Bonner setur leikjamet!


Gemma Bonner setti á dögunum nýtt leikjamet fyrir kvennalið Liverpool. Hún er nú búin að spila 135 leiki fyrir Liverpool. Gemma spilar í annað sinn á ferli sínum með Liverpool. 

Gemma fæddist í Leeds 13. júlí 1993. Hún hóf feril sinn hjá Leeds United 2007 og lék með liðinu til 2011. Hún vann National Deildarbikarinn með Leeds 2010. Ef rétt er skilið er sú keppni bikarkeppni neðri deildarliða.  

Árið 2011 gekk Gemma til liðs við Chelsea og lék með liðinu í eitt ár. Hún gerði þá samning við Liverpool. Hún var einn máttarstólpa liðsins þar til hún gekk til liðs við Manchester City 2018. Hún var í sigurliði City sem vann FA bikarinn 2020. 

Gemma söðlaði um 2021 og fór til Bandaríkjanna. Hún gerði þar samning við Racing Louisville. Hún var í rúmt ár hjá Racing en í desember í fyrra kom hún aftur heim til Liverpool. 


Sem fyrr segir var Gemma lykilmaður í liði Liverpool í fyrri dvöl sinni hjá félaginu. Liverpool varð Englandsmeistari 2013 og 2014. Gemma var þá fyrirliði liðsins. Myndin að ofan var tekin þegar Liverpool varð Englandsmeistari 2013.

Gemma Bonner spilaði með undir 17, undir 19 og undir 23. ára landsliðum Englands áður en hún komst í aðallandsliðið. Hún lék 11 landsleiki og skoraði eitt mark. 

Liverpool mætti Brighton í deildinni á sunnudaginn. Fyrir leikinn fékk Gemma viðurkenningu frá Ian Callaghan leikjahæsta  leikmanni í sögu Liverpool. Leikurinn við Brighton gekk eins og í sögu. Liverpool vann 4:0 og skoraði Gemma fyrsta markið. 

Gemma Bonner fær hamingjuóskir í tilefni leikjametsins frá Liverpool klúbbnum á Íslandi. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan