| Sf. Gutt

Algjörir yfirburðir!



Gott gengi Liverpool í deildinni hélt áfram þegar liðið vann yfirburðasigur 3:0 á Nottingham Forest á Anfield Road í dag. Liverpool heldur í við efstu liðin sem verður að teljast nauðsynlegt því þau hafa ekkert gefið eftir.

Að sjálfsögðu voru gerðar nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá Evrópuleiknum á fimmtudagskvöldið. Luis Díaz hefði trúlega verið í byrjunarliðinu en hann var fjarri. Fjarvera hans kom ekki til af góðu. Foreldrum hans hafði verið rænt af mannræningjum í Kólumbíu. Móðir hans er komin fram heil á húfi en föður hans er leitað. 

Fyrir leikinn var þeirra Bill Kenwright og Bobby Charlton minnst með lófataki. Bill var stjórnarmaður Everton um árabil. Hann sýndi Liverpool alltaf mikla virðingu og ekki síður stuðning í öllu því sem sneri að harmleiknum á Hillsborough. Bobby var fyrrum leikmaður Manchester United. Hann var í heimsmeistaraliði Englands 1966. Hann sýndi líka stuðning í Hillsborough málinu. Minningu hans var sýnd virðing á öllum knattspyrnuvöllum nú um helgina. 

Liverpool tók öll völd á vellinum frá upphafsflautinu í haustsólinni. Yfirburðirnir voru ótrúlegir og gestirnir komust varla framfyrir miðju. Það stóð reyndar lengi á góðum færum og Liverpool fékk ekki almennilegt færi fyrr en mínútu vantaði í hálftíma. Varnarmaður féll við og Darwin Núnez komst í færi. Hann átti fast skot við endamörkin en Matt Turner varði. Darwin var í þröngu færi og hefði kannski átt að reyna að gefa fyrir í stað þess að skjóta.

Tveimur mínútum seinna vann Alexis Mac Allister boltann rétt aftan við miðju og kom honum fram á Dominik Szoboszlai. Hann sendi á Darwin sem komst inn í teig hægra megin. Hann þrumaði að marki en aftur varði Matt. Hann hélt ekki boltanum sem hrökk út frá markinu. Rétt utan vð markteiginn lauk Diogo sókninni með því að renna boltanum í autt markið. Portúgalinn hljóp í átt að varamannabekk sínum og fékk treyju merkta LUIS DÍAZ 7. Hann lyfti treyjunni og sýndi áhorfendum bak hennar. Félgar hans fögnuðu svo með honum. Félaga sem á nú erfiðar stundir var sannarlega sýndur stuðningur með þessu!

Liverpool lét kné fyglja kviði og skoraði aftur fjórum mínútum seinna. Dominik og Mohamed Salah léku saman hægra megin. Sú samvinna endaði með því að Dominik gaf fyrir markið á Darwin sem smellti boltanum upp í þaknetið af örstuttu færi. Vel útfærð sókn!

Þegar fimm mínútur voru að leikhléi varði Matt tvívegis í sömu sókninni. Fyrst skaut Ryan Gravenberch utan teigs en Matt hélt ekki boltanum þannig að sóknin hélt áfram. Dominik fékk  boltinn í framhaldinu en Matt varði skots hans sem líka var utan teigs. Örugg forysta í hálfleik. 

Eftir hlé var það sama uppi á teningnum. Það var bara eitt lið á vellinum en það færðist þó ró yfir og lítið var tíðinda. Reyndar fékk Forest fyrsta færi hálfleiksins eftir um klukkutíma. Morgan Gibbs-White komst þá fram hægra megin og gaf fyrir. Boltinn rataði á einn félaga hans sem var dauðafrír í miðjum teig en hann hrasaði og boltinn fór sína leið.

Á 77. mínútu sóttu gestirnir. Sókninni var bægt frá. Dominik fékk boltann rétt utan eigin teigs og sendi langa og háa sendingu í átt að vítateig Forest. Þangað var Matt kominn með einum varnarmanni. Þeir rugluðust algerlega í rýminu og boltinn féll fyrir fætur Mohamed Salah. Hann tók tilboðinu og sendi boltann í autt markið rétt utan vítateigs. Ódýrt og gott mark!

Fimm mínútum fyrir leikslok kom sending fyrir mark Liverpool frá hægri. Boltinn fór yfir á fjærstöng þar sem Anthony Elanga var. Hann þrumaði að marki úr þröngu færi en boltinn fór í slána og niður. Liverpool slapp vel þar. Þegar dómarinn flautaði til leiksloka var boltinn í fangi Alisson Becker en hann hafði rétt í því varið eina skot Nottingham Forest sem hitti markrammann í öllum leiknum!  

Þó svo að Liverpool hafi bara unnið leikinn með þremur mörkum voru yfirburðirnir ótrúlegir. Liðið réði lögum og lofum frá upphafi til enda. Gott gengi heldur áfram og það er ekki hægt að biðja um meira! Jú, reyndar er hægt að biðja um að faðir Luis Díaz komi fram heill á húfi. 

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Gomez 89. mín.), Konaté, van Dijk, Tsimikas, Szoboszlai, Mac Allister, Gravenberch (Elliott 58. mín.), Salah, Núnez (Endo 80. mín.) og Jota (Gakpo 58. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Kelleher, Matip, Chambers og McConnell.

Mörk Liverpool: Diogo Jota (31. mín.), Darwin Núnez (35. mín.) og Mohamed Salah (77. mín.).

Gul spjöld: Trent Alexander-Arnold og Alexis Mac Allister.  

Nottingham Forest: Turner, Aurier, Boly (Awoniyi 69. mín.), Niakhaté, Costa dos Santos, Aina (Toffolo 69. mín.), Gibbs-White (N. Williams 83. mín.), Mangala (Nascimento dos Santos 83. mín.), Sangaré, Domínguez (Yates 69. mín.) og Elanga. Ónotaðir varamenn: Toffolo, Tavares, Worrall og Kouyaté.

Gul spjald: Orel Mangala, Nicolás Domínguez og Ibrahim Sangaré. 

Áhorfendur á Anfield Road:
50.143.

Maður leiksins: Dominik Szoboszlai. Hann bar af á vellinum. Ungverjinn var úti um allt á miðjunni og lagði að auki upp tvö mörk. 

Fróðleikur

- Diogo Jota og Darwin Núnez skoruðu báðir í sjötta sinn á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði tíunda markið á keppnistímabilinu.

- Hann er búinn að skora í öllum heimaleikjum Liverpool í deildinni það sem af er. 

- Markið sem Darwin skoraði var númer 650 á valdatíð Jürgen Klopp. Hér eru aðeins deildarmörk talin. 

- Liverpool hefur nú leikið heilt ár án þess að tapa heimaleik í deildinni.  

- Nottingham Forest vann síðast á Anfield Road árið 1969.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan