| Sf. Gutt

Sterkur sigur!


Liverpool vann í dag sterkan 3:1 sigur á West Ham United á Anfield Road. Liverpool fékk harða mótspyrnu en sýndi sannarlega styrk með því að vinna leikinn. 

Að sjálfsögðu var liðinu breytt nokkuð frá sigrunum í Austurríki og alls voru níu breytingar gerðar. Virgil van Dijk var búinn að afplána leikbannið og hélt stöðu sinni frá því í Evrópuleiknum. Það kom sumum á óvart að Curtis Jones skyldi koma inn í byrjunarliðið en hann kom ekkert við sögu gegn LASK. 

Eins og svo oft síðustu mánuði byrjaði Liverpool ekki af nægjanlegri festu. Hamrarnir færðu sér það í nyt og eftir fimm mínútur náði Tomas Soucek góðum skalla eftir fínt spil en Alisson Becker varði meistaralega neðst í vinstra horninu. Frábær markvarsla hjá Brasilíumanninum. Enn sótti West Ham þremur mínútum seinna. Aftur kom sending fyrir markið en Michail Antonio skallaði óvaldaður framhjá úr upplögðu færi. 

En á 16. mínútu komst Liverpool yfir. Liverpool náði hraðri sókn fram vinstri kantinn. Luis Díaz sendi inn í vítateiginn á Darwin Núnez. Sendingin var mislukkuð en Darwin náði samt að koma við boltann með hælnum. Við þetta breytti boltinn um stefnu og það ruglaði  Nayef Aguerd í rýminu sem varð þess valdandi að hann felldi Mohamed Salah. Brotið var augljóst og það þurfti ekki einu sinni að skoða atvikið í sjónvarpi og þá er það augljóst! Mohamed tók vítið sjálfur og þrykkti boltanum í mitt markið fyrir framan Anfield Road enda stúkuna. Liverpool yfir og það nokkuð gegn gangi mála!

Liverpool tók nú völdin og átti góðar sóknir. Opin færi sköpuðust þó ekki og svo kom allt í einu mark gegn gangi leiksins og nú var staðan orðin jöfn. Á 42. mínútu gaf Vladimír Coufal fyrir frá hægri. Það virtist ekki hætta á ferðum en Jarrod Bowen náði að henda sér framfyrir Virgil og skalla boltann í stöng og inn neðst í vinstra horninu. Sérlega fallegt mark. 

Liverpool svaraði þessu af krafti og Curtis Jones kom Liverpool yfir á 45. mínútu en hann var réttilega dæmdur rangstæður. Aftur þurfti ekki að skoða atvikið enda hafa línuverðir oftast rétt fyrir sér. Mohamed sendi svo inn í vítateiginn á Darwin en markmaður West Ham varði vel neðst í hægra horninu. Ekki gott að hafa hleypt West Ham aftur inn í leikinn. Staðan jöfn í hálfleik.

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og á 53. mínútu gaf Mohamed góða sendingu inn í vítateiginn á Darwin sem hljóp sig frían og þrumaði frá vítapunktinum. Flestir áttu von á því að boltinn myndi þenja netið en þess í stað endaði hann uppi í Kop stúkunni. Illa farið með dauðafæri!

En Darwin bætti fyrir þetta eftir klukkutíma leik. Alexis Mac Allister lék fram völlinn og af miðjum eigin vallarhelmingi lyfti hann boltanum hárfínt yfir vörn West Ham. Aftur tók Darwin gott hlaup. Hann kom að boltanum á svipuðum stað og þegar hann skaut framhjá en núna í stað þess að skjóta fast stýrði hann boltanum viðstöðulaust á loft út í markið vinstra megin. Frábærlega gert hjá Darwin og ekki var sendingin síðri! Nú þöndust netmöskvarnir. Ekki mikið en nóg!

Þegar níu mínútu lifðu leiks komu Diogo Jota og Cody Gakpo til leiks. Diogo beið ekki boðanna og skoraði fjórum mínútum seinna. Andrew Robertson tók horn frá vinstri. Spyrna hans rataði á Virgil sem skallaði boltann niður til Diogo og hann skoraði auðveldlega af sstuttu færi. Sigurinn innsiglaður!

Liverpool sýndi styrk í dag því West Ham mætti þeim af hörku. Vissulega byrjaði Liverpool ekki vel en náði yfirhöndinni og gaf það ekki eftir þó Hamrarnir næðu að jafna. Stórgott!

Mörk Liverpool: Mohamed Salah, víti, (16. mín.), Darwin Núnez (60. mín.) og Diogo Jota (85. mín.).  

Mark West Ham United: Jarrod Bowen (42. mín.).

Gul spjöld: Edson Álvarez og Kurt Zouma.

Áhorfendur á Anfield Road: 50.136. 

Maður leiksins: Alexis Mac Allister. Argentínumanninum hefur gengið misjafnlega eftir að hann kom til Liverpool. En hann var stórgóður og sendingin á Darwin, þegar hann skoraði, var algjörlega frábær. 

Fróðleikur

- Mohamed Salah og Darwin Núnez skoruðu báðir í fjórða sinn á keppnistímabilinu. Þeir eru markahæstir í liði Liverpool.

- Diogo Jota skoraði í annað sinn á leiktíðinni. 

- Liverpool skoraði þrjú mörk þriðja leikinn í röð. 

- Liverpool skoraði 15. deildarleikinn í röð á móti West Ham United. 

- Þetta var 50. sigur Liverpool á West Ham í öllum keppnum. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan