| Sf. Gutt

Enn og aftur hættur við að hætta!


Roy Hodgson, fyrrum framkvæmdastjóri Liverpool, er enn og aftur hættur við að hætta. Hann hætti vorið 2021 og svo aftur síðasta vor. En hann er aftur mættur til starfa!

Patrick Vieira var rekinn sem framkvæmdastjóri Crystal Palace fyrir nokkrum dögum. Í gær var tilkynnt að Roy myndi stjórna liðinu til loka leiktíðarinnar. 

Roy stýrði Crystal Palace frá 2017 til 2021. Þá um vorið lýsti Roy því yfir að framkvæmdastjóraferill hans væri á enda. En Roy sneri aftur í janúar í fyrra. Þá tók hann við Watford og stýrði liðinu til vors. Hann var fenginn til að bjarga liðinu frá falli en það tókst ekki. Þá um vorið lýsti Roy aftur yfir starfslokum. 

En Roy stóðst ekki mátið þegar hann var beðinn að stjórna Crystal Palace til vors. Liðinu hefur gengið illa í síðustu leikjum og það er orðið stutt í neðstu lið deildarinnar. Roy hélt með Crystal Palace frá blautu barnsbeini og hóf knattspyrnuferil sinn hjá félaginu. Hann spilaði aldrei fyrir aðallið félagsins. Það er þó ljóst að rætur hans liggja hjá félaginu. 


Roy Hodgson er nú 75 ára gamall. Hann verður 76 ára í sumar. Roy er því að slá aldursmet framkvæmdastjóra í Úrvalsdeildinni í þriðja sinn. Roy er sannarlega ekki af baki dottinn!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan