| Sf. Gutt

Af HM


Í kvöld lauk fyrstu umferð riðlakeppni Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu. Fulltrúar Liverpool eru flestir búnir að taka þátt. 

Heimsmeistarakeppnin hófst í Katar á sunnudaginn sem leið. Ekvador vann Katar 0:2 í opnunarleiknum. Þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem heimalið tapar opnunarleik á HM. 


Í kvöld vann Brasilía sterkan 2:0 sigur á Serbíu. Alisson Becker var í markinu og hélt markinu hreinu án mikils vanda. Fabinho Tavarez var varamaður og kom ekki við sögu. 

Fyrr í dag skildu Úrúgvæ og Suður Kórea án marka. Darwin Núñez skoraði ekki frekar en aðrir í leiknum. Hann leiddi sókn Úrúgvæ með Luis Súarez. 

Í fyrradag var Ibrahima Konaté nokkuð óvænt í byrjunarliði Frakka sem unnu öruggan 4:1 sigur á Ástralíu. Ibrahima stóð sig vel. 

Á mánudaginn unnu Englendingar stórsigur 6:2 á Íran. Jordan Henderson og Trent-Alexander Arnold voru allan tímann á bekknum. 

Sama dag unnu Hollendingar 2:0 sigur á Senegal. Virgil van Dijk var á sínum stað í vörninni. Hann slapp við að takast á við fyrrum félaga sinn Sadio Mané sem meiddist stuttu fyrir keppnina. 

Það má nefna að Wales lék þá um kvöldið fyrsta leik sinn í úrslitakeppni HM frá því í Svíþjóð 1958. Liðið gerði 1:1 jafntefli við Bandaríkjamenn. Gareth Bale jafnaði metin úr víti. Tveir fyrrum leikmenn Liverpool, Neco Williams og Harry Wilson, voru í byrjunarliðinu. Danny Ward og Joe Allen voru á bekknum. 


Fyrir HM voru nokkrir æfingaleikir sem leikmenn Liverpool tóku þátt í. Caoimhin Kelleher var í marki Íra sem unnu 0:1 útisigur á Möltu. Mohamed Sala lék með Egyptalandi sem vann Belgíu 2:1. Mohamed lagði upp annað markið. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan